Hátíðin Hörmungardagar verður haldin á Ströndum helgina 28. feb – 1. mars (og smávegis upphitun fyrr).
Hátíðin var áður haldin fyrir 5 og 6 árum og er hugsuð sem dálítið mótvægi við bæjarhátíðina Hamingjudaga á Hólmavík sem haldin er á sumrin, hvað varðar umfjöllunarefni og efnistök. Fjöldi aðila í héraðinu kemur að hátíðinni og tengir viðburði sem þeir standa fyrir við hörmungaþemað með margvíslegum hætti.
Á hátíðinni er áhersla lögð á það sem aflaga hefur og getur farið og glímt við margvísleg vandamál og áskoranir sem fólk á Ströndum og heimurinn í heild sinni stendur frammi fyrir. Veturinn er kjörinn tími fyrir slíka þemavinnu og hátíðin er þess vegna haldin í febrúar, áður en vorið lætur á sér kræla.
Ýmislegt frekar erfitt, dapurlegt og jafnvel bragðvont verður á dagskránni sem er enn í mótun og breytingar á tímasetningum og jafnvel tilfærslur á viðburðum geta vel orðið næstu daga. Svo eru veðurguðirnir vísir með að setja strik í alla útreikninga. Fylgist því vel með.
Drög að dagskrá Hörmungardaga 2020:
25. feb – þriðjudagur:
kl. 18-20 – Upphitun fyrir Hörmungardaga – Stefnumót við dauðann! – málþing á Galdrasýningunni þar sem nemendur í hagnýtri þjóðfræði við HÍ flytja 7 stutt, snörp og upplífgandi erindi sem öll tengjast dauðanum, með einum eða öðrum hætti. Haldið af Rannsóknasetri HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu, Galdrasýningunni og námsbraut í þjóðfræði við HÍ.
27. feb – fimmtudagur:
kl. 21 – Hvatastöðin með hörmungaþema í jógatíma þar sem fólki gefst færi á að losa sig við vondar hugsanir og viðbjóð hverskonar.
28. feb – föstudagur:
kl. 12:30 – Opið hús í Grunnskólanum á Hólmavík þar sem verður sýning í framhaldi af Þemadögum í skólanum. Loftslagsbreytingar og ólík lífsgæði verða meðal umfjöllunarefna. Veitingar og söluvarningur á boðstólum, safnað fyrir góðu málefni.
Kl. 13:40 Íþróttaskóli og 14:45 handbolti. Opnar íþróttaæfingar í Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík hjá Geislanum, Hörmulega erfiðar æfingar, öllum opnar, ræður þú við álagið?
kl. 15-16 – Opið hús í leikskólanum Lækjarbrekku. Þar verður sett upp föndurstöð og í boði verða léttar veitingar. Klukkan 17 verður líka kökubasar í KSH og allan daginn verður safnað fyrir Vanessu sem er SOS barn leikskólans og trjáplöntum til gróðursetningar og kolefnisjöfnunar.
kl. 17:30 – Leikhópurinn Lotta sýnir Hans klaufa í Félagsheimilinu á Hólmavík. Stórskemmtilegur fjölskyldusöngleikur. Sjá nánar:
kl. 20:00 – Pubkviss með hörmungaívafi á Restaurant Galdri – Galdrasýningu á Ströndum.
29. feb – laugardagur:
kl. 11:30 -13:30 – Matarmartröð æsku minnar! Uppákoma sem snýst um matarminningar á Sauðfjársetri á Ströndum með viðeigandi veitingum og smakki á meðan birgðir endast. Smakkið er byggt á óformlegri könnun og umræðu á fésbók um minningar fólks um vondan mat sem var að þeirra mati (alltof) oft á borð borinn á æskuárunum, en þar var t.d. tíðrætt um Hræring sem langflestir nefndu til sögunnar, einnig Grasaysting, Lúðusúpu, Lifur og fleira. Einnig verður tveir gómsætir gæðaréttur á boðstólum, kjötsúpa sem er óumdeild og var ekki tilnefnd af neinum sem vond minning og brauðsúpa sem fékk furðanlega margar slíkar tilnefningar.
kl. 14-16:30. Hágæða fyrirlesarar mæta í Hnyðju á Hólmavík á vegum Hörmungardaga með fróðleik og fyrirlestra sem eru opnir öllum sem áhuga hafa, Ingrid Kuhlman og Eyþór Eðvarsson. Gestum boðið upp á kaffi og kleinur milli erinda. Sjá nánar:
kl. 14-15. Þrjár leiðir til að ná sér í yngri maka!
Djók! En gott að hafa náð athygli þinni. En þetta er víst lýsing á fyrirlestri um mikilvægi húmors. Húmor losar um spennu og léttir andrúmsloftið, dregur úr streitu og eykur sköpunargleði og námsgetu. Húmor eykur einnig samkennd og hefur yngjandi áhrif. Til eru mismunandi tegundir af húmor, eins og t.d. hörmungahúmor, gálgahúmor og yfirlætishúmor. Við notum húmor einnig sem tæki í samfélagsrýni. Í fyrirlestrinum verður á gamansaman hátt fjallað um húmor í hinum ýmsu myndum. Það er sannarlega ástæða til að brosa. Fyrirlesari: Ingrid Kuhlman hjá Þekkingarmiðlun, MSc í hagnýtri jákvæðri sálfræði. (Opinn fyrirlestur í Hyðju)
kl. 15-16. Við deyjum öll úr stressi!
Á þessum síðustu og verstu tímum gerir streitan vart við sig. Framtíðin er vonlaus, krónan verðlaus og hrun er allsráðandi. Birtingarmyndir streitu eru fjölmargar, m.a. grátur, reiði, útifundir, niðurgangur, svitaköst, minna kynlíf, þyngdaraukning og þyngdartap, stífir kjálkar, samskiptaörðugleikar, svefnleysi, bakverkir o.fl.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin lét einhvern tímann hafa eftir sér að fjórða hvert sjúkrarúm væri upptekið vegna streitutengdra atriða. Við getum því stressað okkur yfir því að kostnaðurinn í heilbrigðiskerfinu muni vaxa verulega á næstunni. Tími svartsýnu „raunsæismannanna“ er runninn upp og sól jákvæðninnar horfin í skuldafenið. Á þessu námskeiði verður farið yfir fyrirbærið streitu á fræðilegan og léttan hátt. Skoðað verður hvernig stressuð þjóð sem ekki er viðbjargandi getur brugðist við og slakað á. Fyrirlesari Eyþór Eðvarðsson hjá Þekkingarmiðlun, MA vinnusálfræði. (Opinn fyrirlestur í Hnyðju).
kl. 16-17 – Skemmtilegt er myrkrið! er sýning sem er uppi í Hnyðju og gefst fólki gott tækifæri til að skoða hana eftir að fyrirlestrunum lýkur. Hér er á ferðinni sögusýning um draugagang og draugasögur, samin af þjóðfræðingunum Dagrúnu Ósk Jónsdóttur og Jóni Jónssyni og myndskreytt af Sunnevu Guðrúnu Þórðardóttur.
Á laugardagskvöldinu er dálítið erfitt með viðburðahald, vegna þess að þá verður haldin einstök og stórbrotin söngskemmtun á landsvísu, á Varmalandi í Borgarfirði. Hér er auðvitað átt við söngveislu karlakórsins Söngbræðra sem Strandamenn syngja jafnan með í stórum stíl. Svo er Eurovision líka í sjónvarpinu.
1. mars – sunnudagur:
kl. 11 – Karlahlaup verður haldið á Hólmavík 1. mars kl.11 og er hlaupið frá Íþróttamiðstöðinni, hlaupið er aðeins 5 km. Þetta er í fyrsta sinn sem efnt er til karlahlaups á vegum Krabbameinsfélagsins. Athugið að klíkur af öllum stærðum og gerðum, gengi, vinahópar, félagsmenn og aðrir hópar eru hvattir til að mæta í hlaupið undir eigin „flaggi og fána“ til að setja svip sinn á hlaupið. Allur ágóði í þátttökugjaldi og kaupum á sokkapörum rennur óskiptur til félagsins, undir átakinu Mottumars.
kl. 15-16:30 – Sögustund og sunnudagskaffi í Sævangi. Jón Jónsson þjóðfræðingur flytur frásögnina: Snjóflóðið í Goðdal 1948. Viðburðurinn er haldinn í samvinnu Sauðfjársetursins og Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu. Sjá nánar hér:
kl. 17-18:30 – Hörmungabíó á Galdrasýningunni, vel valin b-mynd sýnd.