Samkvæmt venju er fjölbreytt dagskrá í heilsubænum Bolungarvík í febrúar.
Miðvikudaginn 12 febrúar er Salóme Elín Ingólfsdóttir, næringarfræðingur með fyrirlestur í Félagsheimilinu kl. 20:00 þar sem fjallað verður um almenna heilsu og hreysti með áherslu á næringuna. Mataræði okkar hefur heilmikil áhrif á heilsuna og öllum er hollt að meta eigin lífsvenjur og tileinka sér ákveðin atriði sem miða að bættri heilsu. Að yfirferð lokinni ættu allir að hafa áttað sig á mikilvægi þess að borða matinn sinn.
Þann 27 febrúar er Helena Jónsdóttir, sálfræðingur með fyrirlestur sem sem nefnist: Vellíðan í lífi of starfi, tekist á við streitu og kulnun. Hugræn atferlismeðferð (HAM) er áhrifarík og gagnreynd nálgun þar sem við lærum að takast á við erfiðar tilfinningar á borð við streitu, kvíða, reiði og depurð með lausnamiðuðum aðferðum sem allir geta lært að nota í daglegu lífi. Á þessum fræðslufyrirlestri fá þátttakendur fræðslu um orsakir, einkenni og afleiðingar streitu og kulnunar auk þess sem þátttakendur læra að greina eigin streituviðbrögð og kortleggja þær leiðir sem þeim geta reynst árangursríkar í baráttu við streitu. Notast verður við helstu aðferðir hugrænnar atferlismeðferðar og er hann sjálfstætt framhald af fyrri fyrirlestri, Bætt líðan með aðferðum HAM.
Auk þessa er boðið upp á heilsufarsmælingu í sundlauginni, yoga fyrir eldri borgara, gömlu dansana, skyndihjálparnámskeið og margt fleira.