Hallgrímur Sveinsson

Hallgrímur undi sér innan um veðurnæmar heiðar og snjólögð fjöll Vestfjarða. Þau Guðrún bjuggu með sauðpening, fyrst á Hrafnseyri og svo á Brekku í Brekkudal; hún fæddur bóndi, búskapurinn ástríða, þekkir hverja kind; hann heyskaparmaður, naut þess að sjá sláttuvélarskúffuna taka grasið og skila því í gróskumikla múga; andaði glaður að sér angan af þurri töðu, var sæll á veturna, þegar hann fann heitan ilminn af ánum leggja út um fjárhúsdyrnar, horfði á þær stoltur þar sem þær þyrptust á garðann og stungu nefjunum í góðu lyktina; hafði þessa þykku, sigg-grónu hönd og þennan hlýja lófa, sem tekur varlega um hornið á kindinni neðst, til þess að brotni ekki.

Þau voru viðbrigða gestrisin; Prestafélag Vestfjarða átti tíðum samfundi í safni Jóns forseta, klerkar kallaðir inn í bæ að þiggja kaffi og með því, borinn voldugur skattur þegar sól rann, og ekki að nefna borgun. Á eftir settist húsbóndinn hjá gestunum inni í stofu, skríkti og var smástríðinn; sjálfur trúr vörslumaður kirkju og kapellu, skólastjóri og bókaútgefandi. Þau stunduðu dúntekju; þú kemur að æðarkollu, sem liggur á.

Allt í einu tekur hún viðbragð, gaggar, blæs og stekkur af hreiðrinu. Ofan í spreklóttum kraga af dún liggja ungarnir, ljósari á kviðinn, sex til átta talsins, oft færri. Einn er elstur og sprækastur. Hann er skraufþurr og ekki svo lítill, tekur eldsnöggt á rás eitthvert út í buskann. Þú mátt hafa þig allan við að ná honum. Þegar þú kemur með hann að hreiðrinu er annar þotinn. Þú ferð eftir honum og á meðan leggur sá þriðji á stað út í veröldina. Loks tekst þér að handsama alla. Einn er minnstur, hálfblautur enn þá og liggur hreyfingarlaus með höfuðið inni í skurninni. Þú leggst á hnén og heldur systkinum hans kyrrum með annarri hendi, með hinni tekur þú dúninn. Það verður að bíða að stinga honum ofan í pokann.

Í bili setur þú dúnkökuna undir hnéð, svo hún fjúki ekki burt með stífri innlögninni. Svo leggur þú ungahrúguna í hreiðrið. Nú er að seilast í heyvisk úr hinum pokanum, sem þú hefur meðferðis, að leggja undir og yfir ungana, svo að þeir rjúki ekki burt. Kannski halda þeir að þessi tugga sé mamma. Væri gott að hafa þriðju höndina, því vindurinn belgir út heypokann og er nærri búinn að svipta honum af þér. Þú grípur flaggið litla, sem þú merktir með hreiðrið, þegar þú fannst það í vor, kippir því upp úr jörðinni og stingur því niður aftur. En nú skakkt, til merkis um að búið sé að taka dúninn. Kollan situr íbyggin skammt frá, eða hún rásar fram og aftur, blakandi vængjum, klakandi og það korrar í henni. Hún er full ábyrgðar, því að blikinn, sem sat hjá henni fyrstu dagana eftir að hún verpti, er nú floginn á sjó út. Stundum tekurðu dúninn áður en ungarnir koma úr egginu og svo klekjast eggin út og þá sjá ungarnir bara hey og engan dún og skyldi það skaða æðarunga, að hafa aldrei komist í kynni við dún?

Þökk fyrir vináttu og Guð styrki Gullu og láti nú drengnum góða, Hallgrími Sveinssyni, raun lofi betri.

Gunnar Björnsson pastor emeritus.

DEILA