Halldór Hermannsson

Það er sjónarsviptir að Halldóri Hermannssyni í bókstaflegum skilningi þessara orða.  Hann var aðsópsmikill maður, hvar sem hann lét til sín taka.  Við höfðum það fyrir satt að raddstyrkurinn væri slíkur, þegar hann brýndi raustina, að undir tók í fjöllunum og endurómaði handan yfir djúpið – yfir á Snæfjallaströndina, meðan þar var enn mannabyggð.

Halldór sleit barnskónum í fjöruborðinu í Ögurvíkinni við Djúp vestur.  Foreldrar hans, Hermann og Salóme á Barði, voru ásamt móðurbróður mínum, Þórði í Odda og Kristjönu konu hans, þau seinustu sem gerðu út frá Ögurvíkinni.  Halldór hefur ekki verið hár í loftinu þegar hann fór í sinn fyrsta róður með Hermanni, föður sínum.  Það sýndi sig í göngulaginu alla ævi að hann steig ölduna jafnvel þótt hann hefði þurrt land undir fótum.

Eftir stríð fluttust fjölskyldur beggja, Hermanns  og Þórðar, til Ísafjarðar.  Halldór var því horfinn frá bernskuslóðum ári áður en ég kom fyrst sem hlaupastrákur í Ögur til Hafliða móðurbróður míns.  En ég heyrði endalausar sögur af Halldóri og þeim bræðrum á Barði; af dugnaði þeirra og harðfylgi.  Seinna á lífsleiðinni, þegar fundum okkar bar saman, þóttist ég því þekkja hann og allt hans fólk.  Og það stóð heima.  Þetta voru allt sannir Ögurvíkingar.

Í aðdraganda okkar í inngöngu EFTA árið 1970 var ég gerður út af örkinni til fundahalda um það mál víða úti á landi.  Fyrsti fundurinn var á Ísafirði.  Sá fundur er mér ógleymanlegur.  Það var fullt út úr dyrum.  Það var hiti í mönnum og harður tónnn- en hörku rökræður.  En það sem kom mér helst á óvart var að hinn ungi útgerðarmaður frá Barði, Ögurvíkingurinn, reyndist vera harðsnúinn Evrópusinni.  Og var ekkert að skafa utan af því frekar en fyrri daginn.  Raddstyrkurinn var slíkur að yfirgnæfði alla aðra.  Og þar með sannfæringakraftur og sýn á tilveruna sem var sérstök.  Fjöllinn birgðu honum ekki sýn.  Þvert á móti.  Hann stóð á fjallstindinum og sá þaðan vítt og breitt um heiminn til allra átta.  En var samt harðsvíraður raunsæismaður eins og sjóhundar og útgerðarmenn eiga að vera.  Frá þessari stundu urðum við vinir.

Eftir að við Bryndís fluttumst vestur til að setja á stofn Menntaskólann á Ísafirði urðu kynni okkar nánari.  Fundirnir urðu fleiri og rökræðurnar dýpri.  Seinni árin var það kvótakerfið sem var fyrirferðamest á dagskránni.  En það var ævinlega eins og að fara í andlegt sturtubað að líta inn í beitningaskúrinn hjá Halldóri og félögum og taka rökræðu dagsins. Við Bryndís fóstruðum hin elstu af börnum Halldórs og Kötu við MÍ og eigum um þau góðar minningar.  Þegar ég stakk af til Vesturheims í andlega endurnýjun og Bryndís stýrði skólanum, skikkaði Halldór hana sem ræðumann á Sjómannadegi með þeim ummælum að hún væri af sjómönnum komin í báðar ættir og rynni því blóðið til skyldunnar.

Það er vissulega sjónarsviptir af Ögurvíkingnum.  En eftir standa 48 afkomendur þeirra Halldórs og Katrínar Gísladóttur.  Þeim rennur nú blóðið til skyldunnar að halda merki sjóvíkingsins hátt á loft.

Jón Baldvin Hannibalsson og Bryndís Schram

DEILA