Golfnámskeið á Ísafirði í vetur

Frá golfi á Ísafirði. Mynd: Benedikt Hermannsson.

Golfklúbbur Ísafjarðar stendur fyrir golfnámskeiðum í vetur í samstarfi við Auðun Einarsson golfkennara. Auðunn Einarsson er Ísfirðingur í húð og hár, en býr þessa stundina í Arendal í Noregi, hann hefur komið hingað til Ísafjarðar undanfarin ár og haldið mjög vinsæl námskeið. Námskeiðin verða haldin dagana 3.-10. mars og 6-12.apríl n.k. í aðstöðu klúbbsins við Sundahöfn, Sundagolfi.

Golfíþróttin er einstaklega skemmtileg og býður upp á hæfilega hreyfingu, útiveru og félagsskap. Forgjafarfyrirkomulag íþróttarinnar gerir það að verkum að allir geta spilað saman, hvort heldur þeir séu afburðamenn eða bara venjulegir kylfingar sem hafa gaman af að eltast við boltann og koma honum niður í holu á flötinni.

Golfíþróttinni er oft fundið það til foráttu að vera tímafrek og því henti hún síður ungu fólki sem eru í krefjandi starfi ásamt því að vera með börn á sínu framfæri, sem tekur mikinn tíma og því minna um svigrún til að stunda áhugamálin. Það er samt betra að læra golf á unga aldri og ungmenni sem læra að sveifla kylfu búa að því alla ævi. En það er aldrei of seint að læra golf, en betra að gera það undir leiðsögn kennara.

Golfnámskeið eru fyrir alla aldurshópa. Ungmenni sem ná sveiflunni vandræðalaust og gleyma því aldrei frekar en að læra að hjóla. Fólk á besta aldri er enn þá móttækilegt og getur tileinkað sér flókna íþrótt eins golf. Og það eru ekki síst þeir fullorðnu sem þurfa einmitt á leiðsögn að halda til að komast yfir byrjunar erfiðleika íþróttarinnar, undir leiðsögn golfkennara. Allir geta lært að spila golf og kosturinn við hærri aldur er að þá hefur maður meiri tíma til að ná sveiflunni og læra reglur og umgengni á golfvöllum.

Í Sundagolfi er boðið upp á golfhermi af nýjustu og bestu gerð gegn vægu gjaldi. Þar getur fólk skellt sér á golfvelli víða um heim og spilað með félögum sínum þegar válynd veður geysa hér norður við Dumbshaf. Einnig er mjög góða aðstaða til að pútta, vippa og slá í net í Sundagolfi. Svo er bara að bíða eftir vorinu með fuglasöng og blómstrum í haga þegar golfvöllurinn í Tungudal opnar fyrir kylfinga. Framundar eru framkvæmdir til að auðvelda notkun á golfbílum á vellinum, en ekkert aldurhámark er í golfi og þó fótafúi geri vart við sig er hægt að spila meðan maður stendur undir sér. Aka svo um á milli teiga og njóta lífsins í heimsins skemmtilegasta sporti.

Skráningar á námskeiðið á facebook-síðu Golfklúbbs Ísafjarðar og/eða á netföngin nst@afish.is (yngri flokkar) og silfurtorg1@simnet.is fyrir þá eldri.  Upplýsingar veita Shiran Þórisson s.8315300 og Kristín Hálfdánsdóttir s.8328855.

DEILA