Félags- og barnamálaráðherra styrkir frjáls félagasamtök um 140 milljónir króna

Í ár var lögð sérstök áhersla á verkefni sem lúta að málefnum barna og fjölskyldna.

Meðal þeirra eru verkefni á vegum Barnaheilla, Rauða krossins á Íslandi, KFUM og KFUK og styrktarfélags lamaðra og fatlaðra.
Einnig voru veittir styrkir til verkefna sem heyra undir önnur málefnasvið félags- og barnamálaráðherra sem lúta m.a. að málefnum fatlaðs fólks, fátækt, geðheilsu, félagslegri virkni og ofbeldi.

Í ávarpi sínu við úthlutun styrkjanna á Nauthóli í dag talaði ráðherra um það verðmæta starf sem frjáls félagasamtök sinna á degi hverjum í þágu samfélagsins, einkum þau sem vinna að að því að gæta hagsmuna þeirra sem standa höllum fæti í samfélaginu.
Þá sagði ráðherra mikilvægt að til staðar sé sjóður til þess að sækja í, bæði til þess að geta viðhaldið góðum verkefnum en ekki síst til þess að geta þróað ný verkefni. „Styrkirnir fela í sér mikil tækifæri fyrir frjáls félagasamtök. Frjáls félagasamtök eru afar mikilvæg samfélagi okkar og þróa oft nýjar og góðar hugmyndir eða útfærslur á eldri hugmyndum sem við tileinkum okkur öll í kjölfarið.
Frjáls félagasamtök gegna oft burðarhlutverki í ýmsum málaflokkum sem varða heilsu og velferð fjölskyldna á Íslandi og nauðsynlegt er að viðurkenna það góða starf sem þar fer fram og veita því brautargengi“ sagði Ásmundur Einar.

DEILA