Það ásótti mig textinn hans Marcel Proust í bók hans Alheimurinn í tebollanum Un univers dans une tasse de thé, þegar ég gaf mér tíma í næði til að íhuga efni bókar Jóns Baldvins Tæpitungulaust. Eins og svipmynd brá fyrir Kolfinnu Baldvinsdóttur, sem bar að lokum hitann og þungann af útgáfu þessarar bókar. Ég sé ennþá fyrir mér Kolfinnu með systkinum sínum sitja í stiganum í Baaregaardshúsinu að Sundstræti 19 á Ísafirði þegar ég kom heim að afloknum vinnudegi í Menntaskólanum á Ísafirði annað árið okkar á Ísafirði. Stillt og prúð börn, Kolfinna, Glúmur og Snæfríður. Ekki mæltu þau orð af vörum en kinkuðu kolli góðlátlega. Ekkert fékk raskað ró þeirra. Þau voru að bíða eftir pabba og mömmu sem voru á heimleið. Allt þetta kom upp í huga minn og ég minntist Proust þegar hann sötraði teið sitt í barnæsku og maulaði madeleine kökuna sína. Alveg eins og Proust sá ég fyrir mér yndislega æskudaga okkar í smábæjum eins og Ísafirði eða Siglufirði þar sem alltaf var sól og alltaf blíða allt sumarið og fólkið okkar hafði nægan tíma til alls, líka til að sötra te og maula magðalenur. Fólkið í síldinni á Siglufirði hafði alltaf tíma fyrir börnin. Þau voru sjálfsagður hluti af lífi fullorðinna. Síldin sá um það á Siglufirði og atvinnulífið á Ísafirði var með svipuðum hætti þó síldina vantaði. Allt þetta hugsaði ég og minntist um leið barnanna okkar.
Kolfinna á þakkir skildar fyrir sinn hluta af þessu verki. Bókin er seinlesin eins og vera ber með pólitísk verkefni. En fyrir þá sem hafa áhuga á stjórnmálum samtíðarinnar og mannlífi er hún gullnáma.
Smábærinn á sér sess í upphafi bókarinnar eins og vera ber. Jón Baldvin dregur upp stórskemmtilegar myndir af Ísafirði í Tæpitungulaust þar sem hann byggði upp öfluga menntastofnun með Bryndísi og dugmiklum kennarahópi. Ísafjörður er fyrsta stóra akkerið í lífi hans. Þar hófst fyrir alvöru starfsferill hans og stjórnmálaferill. Vísir að því sem koma skyldi síðar á lífsleiðinni.
Þegar örlagaþræðir myndast
Einn ógleymanlegur samkennari við MÍ var Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur og síðar einn af okkar bestu ævisöguriturum. Hann sagði eitt sinn við mig í spjalli að skemmtilegustu kaflar ævisagna væru yfirleitt framarlega í sögunni, þegar kraftar æsku og þroska kæmu í ljós og örlagaþræðir færu að myndast sem síðar yrðu að lífshlaupi okkar. Tæpitungulaust er vitanlega ekki ævisaga, en af greinum, frásögnum og ræðum má þar lesa þræðina sem verða að vefnum í lífi Jóns Baldvins. Viðtalið við Stefán Stefánsson, skósmið og kosningastjóra kratanna á Ísafirði frá 1972 er af þessum meiði, saga jafnaðarmanna sem héldu um stjórnartauma á Ísafirði um aldarfjórðungsskeið og byggðu upp útgerð og atvinnulíf, skólana, sjúkrahúsið og ráku myndarbú til að framleiða mjólk og mjólkurafurðir fyrir bæjarbúa. Allt var þetta unnið af fjárvana bæjarsjóði með vonir og dugnað ungra manna og kvenna einar að leiðarljósi. Ungt fólk með hugsjónir jafnaðarmanna nægði til að glæða þorpið lífi og vonum. Veita börnum og fjölskyldum skjól. Það fór einmitt vel á því að rekja einmitt þessa sögu þar sem kaftur endurnýjunar kom með Jóni Baldvin og samverkafólki hans við stofnun Menntaskólans á Ísafirði sem þau hjónin fylgdu síðan frá 1970 í nærri heilan áratug. Það var þeirra fyrsta ævintýri. Ég var svo lánsamur að fá að taka þátt í því.
Fall er fararheill
Þessi kraftur jafnaðarmanna á Ísafirði lifði miklu lengur en blómatími þeirra. Aðferðir þeirra í kosningum og við að afla sér fylgis og þekkja fólkið í bænum fylgdi þeim inn í tímabil okkar samferðamanna Jóns og Bryndísar á fyrsta áratug Menntaskólans á Ísafirði. Mér er minnisstætt að þegar þeir Sighvatur Björgvinsson og Jón Baldvin tókust á í fyrsta prófkjöri um sæti á lista Alþýðuflokksins á Vestfjörðum 1978, minnir mig. Þá vissu reyndir kratar á Ísafirði nákvæmlega upp á atkvæði hvernig úrslitin yrðu, löngu áður en prófkjörið fór fram. Af hverju eru þið að eyða tíma í þetta, Þráinn minn, sagði Björgvin Sighvatsson, faðir Sighvats Björgvinssonar við mig nokkrum dögum fyrir prófkjörið. Þið tapið þessu. Það reyndist rétt mat. Hann þekkti sitt heimafólk. En tími Jóns Baldvins var þá rétt að byrja. Tími hans átti eftir að koma. Hér sannaðist máltækið að fall er fararheill.
Gott vegarnesti
Ég get vart talist hlutlaus áhorfandi að stjórnmálaferli og starfsferli Jóns Baldvins þar sem ég fylgdi honum daglega í störfum í nærri áratug. Fyrst sem kennari við Menntaskólann á Ísafirði og síðan sem blaðamaður undir ritstjórn Jóns Baldvins þar sem ekki var síðra mannval á Alþýðublaðinu sáluga en við Menntaskólann á Ísafirði. Það dróst að honum og Bryndísi hæfileikafólk.
Það fór aldrei fram hjá mér ungum að aldri og lítt reyndum í stjórnmálum, að þessi ungi skólameistari hafði til að bera mikla hæfileika. Ekki einungis sem góður, lipur og áhugasamur stjórnandi, heldur var hann einstaklega ritfær, djarfur og beittur ræðumaður. Þetta vegarnesti kom sér vel í orrahríð stjórnmálanna, allt frá bæjarstjórnarárum á Ísafirði til þingmanns og ráðherra. Tæpitungulaust sýnir þann mikla dugnað og þá miklu vinnu sem hann lagði alla tíð í að undirbúa pólitísk verk sín. Þrautseigja er líklega orðið sem hæfir honum best til að lýsa pólitísku lífsstarfi hans.
Áhugamaður um samtímasögu og góður greinandi
Það hefur tvímælalaust staðið með Jóni Baldvin og kemur vel fram í Tæpitungulaust, hve ríkan hæfileika hann hefur til að greina atburði og söguna. Sagt hefur verið að sá sem þekkir söguna og lærir af henni, eignast verkfæri til að takast á við framtíðina. Það fór ekki fram hjá samkennurum hans við MÍ að hann lagði mikla áherslu á kennslu og greiningu í samtímasögu. Pólitísk greining hefur ætíð verið sérgrein Jóns Baldvins. Þetta er eitt megineinkenni hans sem stjórnmálamanns. Í þessu efni stóð með honum mikil þekking á sögu sem hann hafði aflað sér, en ekki síður pólitísk reynsla úr heimahögum Hannibals og bræðra Jóns Baldvins. Það á sérstaklega við um Arnór sem aflaði sér víðtækrar þekkingar á sögu og eðli kommúnismans í Austur Evrópu og tengslum kommúnistaflokkanna við bræðraflokka í V-Evrópu. Þeir bræður áttuðu sig á því eins og Hannibal að fyrirmyndarríki sósíalismans varð aldrei annað en stærsta fangelsi mannkynssögunnar og uppgjör íslenskra kommúnista við Stalínismann fór aldrei fram. Hannibal endaði í stjórnmálaflokkum jafnaðarmanna og Jón Baldvin varð formaður Alþýðuflokksins löngu eftir að hann og félagar hans höfðu huslað kommúnismann á öskuhaugum sögunnar. Það varð áratugum áður en Berlínarmúrinn féll og kommúnismi Austur Evrópu leið undir lok. Það er örugglega rétt niðurstaða hjá Jóni Baldvin að hópur vinstri manna á Íslandi neitaði að horfast í augu við það hugmyndafræðilega uppgjör sem nauðsynlegt var og minnir á orð Kjartans Ólafssonar um að þörf hefði verið á vægðarlausri endurskoðun og nýju brautryðjendastarfi þannig að ekki hefði orðið til kynslóð án skýrrar pólitískrar sjálfsmyndar.
Því miður fór sú endurskoðun aldrei fram.
Pólitískur hugsuður með lífssýn
En eftir sat víðtæk þekking og reynsla Jóns Baldvins þegar kom að mikilvægustu pólitísku áskorunum í lífi hans. Ólafur Þ. Harðarson segir í formála bókarinnar um höfundinn að Jón Baldvin hafi verið einn af fáum íslenskum stjórnmálamönnum sem geti talist umtalsverðir pólitískir hugsuðir með heillega og yfirgripsmikla lífssýn. Það er vart hægt að orða þetta betur. Formáli Ólafs Þ. Harðarsonar er reyndar þannig lofsverður að hann er alveg nauðsynlegur inngangur að bókinni. Stefán Ólafsson segir í áhugaverðri umsögn um bókina að auk tveggja afreka Jóns Baldvins á stjórnmálasviðinu, EES samningsins og framlags hans til sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna, vilji hann benda á framlag hans sem fjármálaráðherra að gerbreyttu og endurgerðu skattkerfi á Íslandi. Eftir uppskurð og umbreytingu skattkerfisins, nýtti fjármálaráðherra stórhækkaðan persónuafslátt til að hafa mikil áhrif á fjárhagsafkomu almennings. Stefán minnir á að í kjölfar skattabreytingarinnar frá 1988 til 1994 hafi lægstu laun á vinnumarkaði sem og lágmarkslífeyrir frá almannatryggingum verið skattfrjáls í tekjuskattinum. Það er staða sem láglaunafólk og lífeyrisþegar nútímans geta einungis látið sig dreyma um, segir Stefán en flestum er kunnugt hvernig persónuafsláttur hefur verið rýrður allt frá 1995 og síðan með annarri atlögu eftir hrunið. Á sama tíma hefur álagning á tekjur hátekjufólks verið lækkuð. Í þessu liggur ein stóra ástæða þeirrar miklu tekju- og eignatilfærslu sem við þekkjum vel á síðustu tveimur áratugum. Þetta er örugglega rétt og sanngjarnt mat hjá Stefáni Ólafssyni í vandaðri umsögn hans um bókina.
Hugsjónir um frelsi, lýðræði og sjálfsákvörðunarrétt smáþjóða
Það er áhugaverð spurning sem Ólafur Þ. Harðarson veltir upp hvað hafi valdið í reynd einbeittum stuðningi Jóns Baldvins við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltslandanna. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að hugsjónir hans um frelsi, lýðræði og sjálfsákvörðunarrétt smáþjóða hafi ráðið för fremur en annað. Ekki vil ég gera lítið úr þessum orðum. Það er í þeim mikill sannleikskjarni. Þrátt fyrir harða andstöðu allra vestrænna þjóða og mikla viðskiptahagsmuni Íslands við Sovétríkin sálugu, hafi JBH tekið þessa afdrifaríku ákvörðun. Þetta var mikil pólitísk áhætta sem hann tók einn vestrænna leiðtoga.
Hafði kjark sem fáum er gefinn
En þeir sem hafa fylgst vel með skrifum Jóns Baldvins síðustu áratugina, þekkja vel andúð hans á ofurvaldi og níðingsverkum húsbóndanna í Kreml. Hann hafði kynnt sér vel sögu Sovétríkjanna og taldi að hin nýja yfirstétt kommúnista, nomenklatúra, myndi aldrei láta ótilneydd af völdum. Þegar tækifærið gafst til að hafa úrslitaáhrif á atburðarásina í Eystrasaltsríkjunum, var hann eini leiðtogi Vesturlanda sem svaraði kallinu um stuðning. Ísland var um tíma, þegar mest reið á, eina NATO þjóðin sem veitti Eystrasaltsþjóðum stuðning til sjálfstæðis, meðan ráðamenn í Atlantshafsbandalaginu gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að trufla ekki Glasnost og Perestrojku Gorbasjovs. Ég lít á bakgrunn Jóns Baldvins, baráttu hans gegn Sovétkommúnismanum og ekki síst andóf bróður hans Arnórs Hannibalssonar og tengingar hans við ýmsa andófsmenn í Balkanlöndunum sem mikilvægan þátt í þeirri ákvörðun hans að leggja allt í sölurnar í þágu sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóðanna. Þarna reyndist greining Jóns Baldvins á stjórmálaástandinu í fyrrum leppríkjum Sovét við Eystrasaltið hárrétt. En þá er ótalið það sem mestu skipti. Jón Baldvin hafði til að bera pólitískan kjark og áræðni sem fáum er gefinn. Um þetta vitnar heimildarmynd Ólafs Rögnvaldssonar Þeir sem þora á mjög áhrifamikinn hátt. Kolfinna Baldvinsdóttir átti einnig þátt í gerð þeirrar myndar.
Mikilvægasti milliríkjasamningur Íslands – EES
Annað helsta afrek Jóns Baldvins er samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið sem er um þessar mundir viðurkenndur sem áhrifaríkasti milliríkjasamningur Íslendinga. Sagan hefur dæmt andstæðinga samningsins nánast úr leik. Þeir gára vart yfirborð sögunnar með augljósum upphlaupum þar sem reynt er að koma höggi á EES samninginn. Enginn samningur skilar þjóðarbúinu öðrum eins ávinningi. Íslendingar eru bundnir laga- og tilskipanakerfi ESB. Heilu lagabálkana eins og samkeppnislögin, sækjum við beint til Evrópu og allt vísindasamfélag Íslands nýtur góðs af þeirri miklu vinnu sem fram fer í Evrópusambandinu í gegnum EES samninginn. Það líður ekki ár án þess að við séum með áþreifanlegum hætti minnt á mikilvægi samningsins. Þessi ávinningur endurspeglast ekki einungis í viðskiptum, menningu, vísindum eða fræðastörfum. Tengingarnar hafa víðtæk áhrif á allt stjórnkerfi Íslands. Það tekur stundum á eins og í deilunum um 3. orkupakka ESB á þessu ári.
Raddir andstæðinga hljóðnað
Þessar deilur skipta reyndar ekki máli í stóra samhenginu um samband Íslands og ESB. En það er talandi dæmi um styrk samningsins að raddir andstæðinganna hafa hljóðnað og margir áhrifamenn í stjórnmálum m.a. innan Sjálfstæðisflokksins verja nú samninginn harðast af öllum þó að sumir þeirra hafi áður tekið eindregna afstöðu gegn honum. Þá er einnig áhugavert að fylgjast með yngri áhrifamönnum og konum í Sjálfstæðisflokknum sem hafa talað fyrir EES samningnum með kröftugum hætti. En það segir mikið um flokkakerfið íslenska að flokkur jafnaðarmanna, Alþýðuflokkurinn undir stjórn Jóns Baldvins var eini stjórnmálaflokkurinn hér á landi sem stóð allan tímann einarður að baki þeim ásetningi að mynda þessi dýrmætu tengsl við Evrópu.
Að þora að gagnrýna samherjana
En þrátt fyrir augljósan árangur Jóns Baldvins bæði í EES samningunum og baráttunni fyrir frelsi og sjálfstæði Eystrasaltslandanna, árangri sem hann náði sem fjármálaráðherra í grundvallarbreytingum á skattkerfi íslendinga, hefur hann eiginlega aldrei setið á friðarstóli. Hin pólitíska ástæða er nokkuð augljós. Hann hefur haldið áfram skrifum um stjórnmál fram á þennan dag. Hann tók þátt í mikilli pólitískri umræðu í og eftir hrunið haustið 2008 bæði innanlands og utan eins og nokkrar greinar í bókinni bera með sér. Hann er einn af fáum íslenskum stjórnmálamönnum sem hefur verið eftirsóttur fyrirlesari bæði um Evrópumál, sögu sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltslandanna, hrunið á Íslandi og alþjóðastjórnmál. Greinar eftir hann birtast reglulega í erlendum tímaritum sem venjulega vekja athygli.
Stjórnmálamenn draga sig yfirleitt í hlé
Í íslenskum stjórnmálum hefur það fremur verið regla en hitt að forystumenn í stjórnmálum hafa dregið sig að mestu í hlé að loknum stjórnmálaferli sínum. Dæmi eru þó um hið gagnstæða og má þar nefna Ólaf Ragnar Grímsson, Þorstein Pálsson og Davíð Oddsson sem allir láta enn að sér kveða í þjóðmálaumræðunni. Það er mikill akkur í því að menn með áratuga reynslu af atvinnulífinu og stjórnmálum skuli ennþá miðla af reynslu sinni og þekkingu og ég gef lítið fyrir einstrengingslegar skoðanir og upphrópanir á samfélagsmiðlum um þessa forystumenn. En það þarf nokkuð mikla hæfni til að standa undir endurkomu í þjóðfélagsumræðu svo ekki sé talað um alþjóðastjórnmál. Jón Baldvin er sannarlega í þessum hópi sem lætur að sér kveða í umræðu um stjórnmál á alþjóðavettvangi. Hann “nýtur” einnig þeirrar sérstöðu að hafa tekist grimmt á við samherja sína um grundvallarafstöðu m.a. um hrunið 2008 og Evrópumál.
Sterkar skoðanir á hruninu
Eins og alþjóð er kunnugt hafði Jón Baldvin sterkar skoðanir á hruninu, orsökum þess og eftirmálum. Þetta kemur vel fram í Tæpitungulaust. Ef til vill hafa harðar skoðanir hans á hrunmálum orðið til þess að ýmsir áhrifamenn og samflokksmenn hans úr Samfylkingunni urðu honum fráhverfir. En ekki þýðir að afneita þætti Samfylkingarinnar í orsökum hrunsins, þó að flokkurinn sæti ekki við völd nema síðustu 18 mánuði fyrir hrunið. Ljóst er að pólitísk sannfæring Jóns Baldvins byggir einmitt á greiningum hans sem koma vel fram í þessari bók. Íslensk stjórnvöld gerðu hrikaleg mistök í aðdraganda hrunsins 2008. Þau höfðu tveggja ára tímabil til að takast á við vanda sem þau sjálf báru ábyrgð á með einkavæðingu bankakerfisins. Þau liðu algert eftirlitsleysi með fjármálastofnunum af hálfu innlendra stofnana meðan tákn um aðvífandi hrun hrönnuðust upp á hinum pólitíska sjóndeildarhring. Rannsóknarskýrsla Alþingis dró síðan fram hið spillta umhverfi og tengsl stjórnmála og viðskipta. Samfylking og Sjálfstæðisflokkur eru enn að bíta úr nálinni með það hvernig þetta allt gat gerst á þeirra vakt, en ekki síður klúðrið sem fylgdi í kjölfarið þegar flokkanir gátu ekki viðurkennt hlut sinn og tekið afleiðingum gerða sinna. Jón Baldvin hefur verið ómyrkur í máli um þetta tímabil sem má segja að hafi verið prófsteinn hins nýja jafnaðarmannaflokks Samfylkingarinnar. Hún féll á því prófi. Því miður.
Evrusamstarfið og framkoma ESB við skuldugustu ríkin
Jón Baldvin hefur einnig sett fram gagnrýni á hvernig staðið var að evrusamstarfinu við upphaf evrunnar, fyrst mistökum við upphaf evrusamstarfsins en síðar við aðgerðaleysi ESB og og helstu bankastofnana í Evrópulöndum gagnvart skuldugustu ríkjum sem urðu verst úti í lána- og skuldakreppunni í kjölfara hrunsins. Það er einmitt áhugavert að fylgjast með því hvernig viðhorf hans breytist til Evrópusambandsins í kjölfar kreppunnar haustið 2008. Ljóst er að ýmsir stuðningsmenn hafa ekki sætt sig við þessi pólitísku tíðindi og andstæðingar ESB hér á landi nota oft sjónarmið hans til framdráttar andstöðu við ESB. Jón Baldvin telur lærdóminn af skuldakreppu og mistökunum í stjórnun evrusamstarfsins séu þess eðlis að Íslendingar verði nú að reiða sig á eigið hyggjuvit og sjálfsaga í stað í stað hlutdeildar í efnahagslegum og félagslegum stöðugleika í skjóli evrunnar. Það verður að viðurkennast að Jón Baldvin færir sterk rök fyrir breytingunni á afstöðu sinni, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Við verðum að unna honum þess að vera trúr greiningu sinni og sannfæringu þegar hann telur að þessir atburðir í kringum hrunið geri það að verkum að Ísland geti ekki að óbreyttu gengið í sambandið.
Afleiðingum spillingar í nokkrum ríkjum á ekki að deila með öðrum
Ég vil leyfa mér að vera ósammála Jóni Baldvin um þetta síðasta meginatriði sem tengist skuldseigustu ríkjum ESB. Það er of langt mál að færa rök fyrir þessari skoðun minni hér í stuttri umsögn um bókina. En stutt versjón af skoðun minni er sú að sum lönd Evrópu sem voru djúpt sokkin í spillingu þar á meðal bæði Spánn og Grikkland, hefðu aldrei átt möguleika á að komast frá hruninu öðru vísi en með botnlausan skuldaklafa, hvort sem evrópskir bankar hefðu haldið áfram að lengja lán og afskrifa eða ekki. Alkunna er að Grikkland falsaði fjárhagsstöðu gríska ríkisins löngu fyrir inngönguna í ESB og í ljós hefur komið mikil spilling fjármálaafla og stjórnmálamanna á Spáni allt fram á síðustu ár. Tölum nú ekki um Ítalíu. Þegar innviðir fjármála ríkja eru fúnir og feysknir er óverjandi að taka slíka veikleika inn á sameiginlegt myntsvæði evrunnar og láta skattborgara evrusvæðisins, ríkjasambandsins og bankakerfi aðildarlandanna taka á sig afleiðingar falsana og spillingar í einstökum ríkjum. Þar að auki stóð skuldsettustu ríkjum evrusamstarfsins það til boða að hverfa úr samstarfi um evruna eftir hrunið eins og Mervyn King, fyrrum bankastjóri Englandsbanka rekur í bók sinni um Endalok gullgerðarlistarinnar. Þau kusu að eigin vali að gera það ekki. Flestum er hins vegar ljóst að evrusamstarfið byggði á veikum grunni í upphafi og verður ekki deilt um það.
Nýfrjálshyggjan og norræna módelið
Ég hygg að í seinni tíð hafi fáir ef nokkur stjórnmálamaður hér á landi lýst betur en Jón Baldvin þeim tveimur hugmyndakerfum sem tókust á um stjórnun efnahagsmála í hinum vestræna heimi á seinni hluta síðustu aldar og á upphafsárum nýrrar aldar. Annars vegar með nýfrjálshyggjunni í anda þeirra Hayeks og Friedmans og hins vegar velferðarríki Norðurlanda þar sem norræna líkanið svokallaða hefur sýnt sig að vera sigurvegarinn í langhlaupi hugmyndakerfa í okkar heimshluta. Þegar til valda komust áhrifamiklir stjórnmálamenn eins og Reagan og Thatcher beggja vegna Atlantsála um 1980 fóru áhrif hinnar nýju frjálshyggju sem eldur í sinu og hér á landi hóf Eimreiðarhópurinn innreið sína í stjórnmálin sem endaði í einkavæðingu bankakerfisins. Við vitum öll hvernig sú vegferð endaði og óþarfi að rekja það hér. Hrunið á Íslandi haustið 2008 staðfesti að bæði undirstöður hugmyndafræðinnar og framkvæmd hennar leiddi Ísland í ógöngur.
Margir jafnaðarmenn hrifust af frjálslyndum Blairisma
Margir jafnaðarmenn hrifust af kröfum um aukið verslunar- og viðskiptafrelsi og að ríkisklafanum væri lyft af fyrirtækjum sem voru undir ríkisforsjá á Norðurlöndum og fór áhrifa þessarar stefnu sem oft er kennd við Tony Blair í Bretlandi að gæta á Íslandi og á fleiri Norðurlöndum um aldamótin en Tony Blair vann yfirburðasigur í kosningum í Bretlandi 1997 og var forsætisráðherra í áratug. En þó að margir væru sammála um að losa atvinnulífið undan ríkisforsjá og efla samkeppni, kom fleira til sem veikti stöðu launafólks og efldi stórfyrirtæki á kostnað samtaka launafólks og stjórnmálamanna.
Áhrif frjálsrar farar launafólks og frjálsra fjármagnsflutninga í ESB
Margir hagfræðingar og þjóðfélagsrýnar hafa einnig bent á að áhrif fjórfrelsins um frjálsa för launafólks og frjálsa fjármagnsflutninginga hafi gengið gegn grundvallaratriðum í velferðarkerfum Norðurlandanna og ríkja Evrópu þar sem fjármagnið fékk að valsa eftirlitslaust um ríki sem búið höfðu við nokkuð stöðugan vinnumarkað með lágu atvinnuleysi um áratugaskeið. Þetta breyttist með flóði erlends verkafólks milli landa ESB þar sem í sumum Evrópuríkjum voru ekki ákvæði um lágmarkskjör eins og gilda hér á landi og við höfum haft lögbundin í starfskjaralögunum íslensku í um fjóra áratugi. Alþjóðavæðingin hefur síðan haft svipuð áhrif og aukið styrk stórfyrirtækja á kostnað hreyfingar launafólks og stjórnmálaafla. Jón Baldvin fjallar nokkuð um þessi atriði og ljóst er að hér hafa stjórnmálaflokkar sem telja sig verjendur almannahagsmuna ekki staðið nógu vel á verðinum. Hann hefur eins og margir forystumenn jafnaðarmanna miklar áhyggjur af samþjöppun auðs og vaxandi auðræðis í heiminum sem mun valda velferðarríkjum meiri erfiðleikum í að framfylgja jöfnuði og réttlæti í álfunni.
Jafnaðarmenn rufu haftamúrinn tvisvar á öldinni
Það er íhugunarefni að á síðustu öld sem einkenndist af haftabúskap, verndarstefnu og einangrunarbasli lengst af á Íslandi, voru það jafnaðarmenn sem stóðu í fararbroddi þegar höftin voru rofin, bæði með EFTA aðildinni 1970 og síðan EES samningnum 1994. Það er hins vegar álitaefni hvort þeir varnaglar sem voru í samningunum bæði um frjálsa för launafólks og fjármagns hafa verið nýttir sem skyldi og það á ekki bara við um Ísland heldur ekki síður um Norðurlönd og Evrópuríkin innan ESB.
En það er ekki síður athyglisvert að þegar íslenska þjóðfélagið hrundi undan spillingu og stjórnleysi fjármálaaflanna haustið 2008, kom það í hlut jafnaðarmanna á Íslandi að stýra þjóðarskútunni út úr öldurótinu.
Margir sem fjalla um þetta tímabil, eyða miklu púðri í það að kenna stjórninni sem hreinsaði flórinn eftir frjálshyggjustjórn Geirs H. Haarde um hvaðeina sem miður fór á stjórnartímanum. En staðreyndin er sú að stjórn VG og SF sat uppi með þjóðargjaldþrot sem rekja mátti til mistaka fyrri stjórnar og síðan hljóp annar möndull stjórnarinnar stöðugt undan merkjum þegar reyndi á í stjórnarsamstarfinu.
Norræna líkanið og fyrirmyndarþjóðfélagið
Það var áreiðanlega pólitísk gæfa Jóns Baldvins Hannibalssonar sem fyrrverandi stjórnmálamanns og þjóðfélagsrýnis, að leið hans skyldi liggja sem sendiherra til Bandaríkjanna, lands tækifæranna þar sem allir áttu að geta látið ameríska drauminn rætast. Við sem höfum þekkt hann lengi tókum eftir afgerandi breytingu á viðhorfi hans til bandarískra stjórnmála og hann setti á oddinn umræðu um norræna líkanið sem fyrirmynd annarra stjórnmálakerfa um allan heim. Hann gerir mjög vel grein fyrir samanburði á velferðarkerfum norrænu ríkjanna annars vegar og stjórnkerfum ríkja frjálshyggjuaflanna hins vegar í Tæpitungulaust. Þeir sem stutt hafa þessa stefnu norrænu kratanna hér á landi um fyrirmyndarlíkan stjórnmála og verkalýðsmála Norðurlöndum hafa átt undir högg að sækja. Í kjarasamningum síðustu ára hefur verið reynt að feta þessa leið en því miður hafa margir viljað tína bestu bitana af kökunni. Það er ekki í boði. M.a. þess vegna hefur verið erfitt að koma norræna líkaninu að mótun á velferðarkerfi hér á landi.
Stjórnmálamaður af ástríðu
Þegar litið er yfir lífsstarf Jóns Baldvins í Tæpitungulaust er ljóst að það er þrekvirki. Mig minnir að hann hafi einhvern tímann lýst sjálfum sér sem ástríðustjórnmálamanni. Það er hverju orði sannara. Styrkur JBH liggur í grunninn í þeirri miklu hæfni sem felst í greiningum hans á samtímaatburðum og sögunni. Í hverju einasta stóra verkefni sem hann hefur unnið í stjórnmálum hefur hann lag á að greina hluti með því að taka einfaldar samlíkingar úr samtímanum til að auka skilning okkar á undirliggjandi orsakaþáttum þróunar. Síðan fylgir hann málum fast eftir og tekur stundum mikla pólitíska áhættu.
Hver er konan að baki manninum?
Það verður ekki skilið við þessa umsögn án þess að minnast á hugljúft viðtal við þau Jón Baldvin og Bryndísi í lok bókarinnar sem Jónas Jónasson, útvarpsmaður tók við þau árið 2008. Þegar karlmaður lætur að sér kveða, er stundum spurt í Frakklandi, hvar er konan og þá átt við konuna að baki manninum. Þau Jón Baldvin og Bryndís hafa verið sálufélagar frá unga aldri. Líklega er flestum ljóst að ferill eins og Jóns Baldvins er ekki eins manns verk. Þar hefur stuðningurinn og ráðgjafarhlutverkið verið leiðarljós hans í erfiðum viðfangsefnum.
Mér er minnisstætt árið sem Bryndís var skólameistari á Ísafirði í fjarveru JBH.
Hún var góður yfirmaður sem tókst á við viðfangsefnin af festu og samviskusemi í góðri sátt við nemendur og samkennara. Kannski á vissan hátt mildari. Þannig leysti hún sín verk vel af hendi.
Lokaorð
Ekki ætla ég að eyða orðum að frágangi bókarinnar þar sem ég veit að vinnan að undirbúningi undir prentun var unnin í miklu kapphlaupi við tímann. Einnig minnist Jón Baldvin í eftirmála á endurtekningar sem óhjákvæmilega fylgja verki eins og þessu. Þetta tel ég ekki ókost við bókina, heldur til kosta hennar. Það væri hins vegar ómetanlegt ef úr þessu verki yrði unnið annað verk í mun styttra formi sem væri samantekt um stefnumál og framkvæmd jafnaðarstefnu á Íslandi frá því EFTA samningurinn var gerður og fram á okkar daga. Það færi vel á því að þetta verkefni yrði síðan tengt við stefnur og strauma stjórnmála í hinum vestræna heimi með sérstakri skírskotun til þróunar stjórn- og félagsmála á Norðurlöndum, Bretlandi, í ESB og Bandaríkjum N Ameríku. Sá efniviður sem hér liggur fyrir væri kjörinn efniviður að verki sem þá mætti stilla upp í tímaröð. Sé það fyrir mér sem spennandi lesefni.
Kópavogi 28. desember 2019
Þráinn Hallgrímsson
Höfundur starfaði nær óslitið með JBH á árunum 1973-83. Hann varð síðan að mestu við störf fyrir verkalýðshreyfinguna innan ASÍ, fræðslufulltrúi MFA, Skólastjóri Mímis Tómstundaskólans, skrifstofustjóri ASÍ og síðan skrifstofustjóri Dagsbrúnar og síðar Eflingar-stéttarfélags frá stofnun fram til 2018. Stjórnmálaafskipti hófust með þáttöku í sveitarstjórnarmálum fyrst á Ísafirði og síðan í Kópavogi fyrir Alþýðuflokkinn og síðan Samfylkinguna.