Strandabyggð mótmælir reglugerð um hrognkelsaveiðar

Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur sent frá sér ályktun vegna reglugerðarbreytingar á hrognkelsaveiðum árið 2020. Í ályktuninni segir:

„Sveitarstjórn Strandabyggðar harmar þau áform um breytingar á fyrirkomulagi hrognkelsaveiða sem fram koma í Reglugerð um hrognkelsaveiðar árið 2020. Í Strandabyggð eru nokkrar útgerðir sem byggja rekstrarafkomu sína á þessum veiðum og gangi þessi reglugerðarbreyting eftir, er vegið harkalega að rekstrargrundvelli þeirra og þar með atvinnulífi í sveitarfélaginu. Vill sveitarstjórn benda á nokkur augljós atriði og afleiðingar þeirra;

Með þessari reglugerð er ráðherra að fara gegn niðurstöðu og ábendingum Starfshóps um veiðistjórnun hrognkelsaveiða, frá september 2018, en þar mælir starfshópurinn með fiskveiðistjórnun á grundvelli aflamarks. Þess í stað gerir reglugerðin áfram ráð fyrir veiðistýringu á grundvelli dagafjölda. Hver dagafjöldinn verður, er óljóst í reglugerðinni.

Ný reglugerð kemur verst við minni útgerðir, þar sem hrognkelsaveiðar eru mikilvægur liður í starfsemi þeirra á ársgrundvelli. Ljóst er, sökum niðurskurðar í teinalengd (úr 7.500 í 3.750 metra), að margar útgerðir munu ekki sjá sér fjárhagslega fært að sinna þessum veiðum á þessum breyttu forsendum og þar með rofnar heilsárs rekstrargrundvöllur þeirra.

Með niðurskurði á teinalengd, er ljóst að útgerðir þurfa að fækka í mannskap og margir munu freista þess að róa einir. Slíkt fyrirkomulag, í kappi við tímann, en ekki aflamark, býður þeirri hættu heim að bátar fari á sjó í ótryggari veðrum en ella. Slíkt fyrirkomulag er tímaskekkja og stríðir gegn þeirri áherslu að hafa ávallt öryggi sjómanna að leiðarljósi.

Hrognkelsaveiðar eru ekki aðeins mikilvægar þeim sem þær stunda, heldur eru afleidd störf mikil og mikilvæg, m.a. við flutning í vinnslu, meðhöndlun og vinnslu afurða o.s.frv. Viðbúið er að hluti þessara starfa dragist saman og/eða leggist af, verði reglugerðarbreytingin að veruleika.

Ýmis ákvæði nýrrar reglugerðar eru óskýr og varla framkvæmanleg og má þar nefna þá kröfu að útgerðir tilgreini upphaf veiða löngu fyrir fram. Eins eru útgerðir beðnar að áætla meðafla fyrir veiðiferð, þó svo að reglugerðin kveði einnig á um að „óheimilt er að stunda aðrar veiðar en hrognkelsaveiðar í sömu ferð“.

Það eru því tilmæli sveitarstjórnar Strandabyggðar, að ráðherra endurskoði ákvæði reglugerðarinnar í samráði við umbjóðendur sína, með það að leiðarljósi að tryggja samtímis öryggi og velferð sjómanna og skynsamlega umgengni um auðlindina.“

DEILA