Sálrænn stuðningur skiptir máli fyrir okkur öll

Rauða kross fólkið á Flateyri 15. janúar. Mynd: Rauði krossinn.

Rauði krossinn á Íslandi sinnir fjöldahjálp og félagslegu hjálparstarfi um allt land samkvæmt samningi við Almannavarnir ríkisins. Á hættu- og neyðartímum opnar Rauði krossinn fjöldahjálparstöðvar þar sem fólk fær fyrstu aðstoð. Þar er átt við, eftir því sem við á; skjól, fæði, klæði og sameiningu fjölskyldna. Þar gefst fólki einnig kostur á að fá sálrænan stuðning sem veittur er af sérþjálfuðum sjálfboðaliðum. Fjöldahjálparstöðvar eru opnaðar reglulega á Íslandi og hafa óvenju margar stöðvar verið opnaðar undanfarið í kjölfar óveðurs, umferðaslysa,  snjóflóða og snjóflóðahættu.

Á Vestfjörðum opnaði Rauði krossinn fjöldahjálparstöð á Flateyri í kjölfar snjóflóðs og á Ísafirði vegna snjóflóðahættu. Sjálfboðaliðarnir sem voru að störfum síðastliðna daga og nætur hafa fengið þjálfun í að sinna fjöldahjálp og aðrir eru sérstaklega þjálfaðir í að veita sálrænan stuðning. Þegar alvarlegir atburðir eiga sér stað er mikilvægt að fólk eigi kost á að koma saman í fjöldahjálparstöð og styðja hvert annnað, fá upplýsingar og huga að næstu skrefum. Fólk á Flateyri, Ísafirði og í Súgandafirði hafa fengið stuðning síðastliðna daga í formi hópfunda og einstaklingsviðtala, auk þess sem fjöldi björgunarsveitarfólks hefur þegið stuðning frá Rauða krossinum á svæðinu. Sjálfboðaliðarnir halda áfram að veita stuðning út vikuna. Samráðshópur um áfallahjálp tekur svo við og sinnir þeim málum sem þarf að fylgja eftir.

Sálrænn stuðningur, eða áfallahjálp þarf ekki að vera flókið viðfangsefni og í flestum tilfellum þarf ekki sérfræðinga til að veita slíkan stuðning. Oftast eru það nánir ættingjar og vinir sem veita stuðning og í flestum tilfellum dugir sá stuðningur einn og sér. Margir finna fyrir sálrænum óþægindum í kjölfar áfalla og geta einkennin verið eðlileg miðið við aðstæður, svo sem, ótti, grátur, doði, reiði, þreyta, svefntruflanir, skert athygli, lystarleysi og framtaksleysi.  Þeir sem hafa fengið þjálfun í að veita áfallahjálp eða sálrænan stuðning eru betur í stakk búnir til að koma auga á ef viðbrögðin fara að verða langvarandi og mjög íþyngjandi. Við þær aðstæður taka sérfræðingar við að veita aðstoð. Það er mikilvægt að geta gert sér grein fyrir eðlilegum og óeðlilegum viðbrögðum við áföllum og átta sig á að það er eðliegt að fólki líði illa eftir erfiða athurði og stundum er ógerningur að komast hjá þeirri vanlíðan. Í flestum tilfellum líða óþægindin smám saman hjá og mikilvægt er að takast á við daglegar venjubundnar athafnir sem fyrst. Ef óþægindin líða ekki fljótlega hjá eða fólki finnst það ekki ráða við líðan sína er fólki bent á að leita sér þjónustu í félags- og heilbrigðiskerfinu. Mikilvægt er að hlúa vel að sjálfum sér og sínu fólki og þurfa hjálparliðar sem hafa tekið þátt í björgunarstörfum sérstaklega að fylgjast  með hver öðrum  Svo er gott að muna eftir Hjálparsíma Rauða krossins 1717 þar sem fólk getur fengið svör við spurningum, upplýsingar um úrræði og virka hlustun allan sólarhringinn.

Bryndís Friðgeirsdóttir

Svæðisfulltrúi Rauða krossins

DEILA