Sálfræði þakklætis

Sálfræði þakklætis: hvernig þakklæti getur aukið lífshamingjuna er nafn á fyrirlestri sem Eve Preston flytur í Vísindaportinu í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13 á föstudag. Erindinu verður streymt á netinu á YouTube rás Háskólaseturs og hefst útsending kl. 12:10.

Eve rekur sálfræðistofu í New York í Bandaríkjunum. Þetta verður önnur heimsókn hennar í Háskólasetrið. Eve er þó mikill Íslandsvinur og reynir hún að gera sér ferð hingað til lands á hverjum vetri.

Það þykir almenn kurteisi að sýna þakklæti með því að við þökkum fyrir okkur, en í erindi vikunnar vill gestafyrirlesari okkar, sálfræðingurinn dr. Eve Preston kenna okkur hvernig við getum aukið lífshamingjuna með því að koma þakklæti meira inn í hugsanamynstur okkar.
Rannsóknir hafa sýnt að það að sýna þakklæti getur hjálpað fólki bæði andlega og líkamlega, með því að auka orku, bjartsýni, félagsleg tengsl og það getur jafnvel dregið úr sársauka og verkjum. Hefur þú engum að þakka? Eve Preston mun kenna okkur einfaldar aðferðir til að æfa og rækta þakklæti, m.a. með því að halda þakklætisdagbók. Vonast hún til að gestir Vísindaportsins taki virkan þátt með spurningum og eigin dæmum.

DEILA