Niðurstöður stofnmælingar botnfiska að haustlagi

Hafrannsóknastofnun hefur gefið út skýrslu þar sem greint er frá helstu niðurstöðum stofnmælingar botnfiska að haustlagi sem fram fór dagana 26. september til 3. nóvember sl. Verkefnið hefur verið framkvæmt með sambærilegum hætti ár hvert frá 1996.

Stofnvísitala þorsks hefur lækkað töluvert frá árinu 2017 þegar hún mældist sú hæsta frá upphafi haustmælingarinnar og er nú svipuð því sem hún var árið 2012. Stofnvísitölur ýsu og ufsa lækkuðu frá fyrra ári eftir að hafa farið hækkandi frá 2014. Vísitölur gullkarfa, skarkola og löngu eru háar miðað við árin fyrir aldamót. Vísitölur djúpkarfa, grálúðu, blálöngu og gulllax lækkuðu frá fyrra ári og eru nú undir meðaltali tímabilsins. Stofnar hlýra, tindaskötu, sandkola og skrápflúru eru í sögulegu lágmarki.

Árgangar þorsks frá 2018 og 2019 eru nálægt meðalstærð. Árgangur ýsu frá 2018 mældist lélegur, en fyrstu vísbendingar um árganginn frá 2019 gefa til kynna að hann sé sá næst stærsti síðan 1996. Nýliðun gullkarfa, djúpkarfa og blálöngu hefur verið mjög léleg undanfarin ár. Vísitala nýliðunar hjá grálúðu hefur lækkað hratt frá hámarkinu árin 2009-2013.

Magn flestra brjóskfiska minnkaði frá fyrra ári og er nú um eða undir meðaltali rannsóknartímabilsins. Vísitölur margra annara djúpfiskategunda sem er að mestu að finna í hlýja sjónum suðvestur og vestur af landinu hækkuðu umtalsvert árin 2010-2015 en hafa í sumum tilfellum farið lækkandi undanfarin þrjú til fjögur ár. Almennt má segja að stofnvísitölur kaldsjávartegunda hafi lækkað yfir tímabilið. Hitastig sjávar við botn mældist að meðaltali hátt líkt og undanfarin ár.

DEILA