Kómedíuleikhúsið fær styrk 3.190.000 kr

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur samþykkt tillögu leiklistarráðs um styrki til atvinnuleikhúsa fyrir árið 2020. Alls bárust 105 umsóknir frá 97 atvinnuleikhópum og sótt var um ríflega 625 milljónir króna.

Ákveðið var að veita 94 milljónum króna til 20 verkefna sem skiptast þannig: tíu leikverk, ein barnasýning, ein sirkussýning, fjögur dansverk, þar af eitt dansverk fyrir börn, og fjórar óperur, þar af ein barnaópera.

Kómedíuleikhúsið á Þingeyri undir forystu Elfars Loga Hannessonar var einn af styrkþegunum og fær 3.190.000 kr. styrk fyrir verkið Bakkabræður og fellur styrkurinn undir leiklist.

Allir aðrir styrkir féllu til verkefna á höfuðborgarsvæðinu að frátöldum einum sem er dansverk Ingu Huld Hákonardóttur ssem er skráð erlendis.

Kómedíuleikhúsið fékk í byrjun árs fimm mánaða listamannalaun úr Launasjóði sviðslistafólks, en það jafngildir um 2 milljónum króna.

DEILA