Almannarómur vestur á fjörðum segir að það hafi verið Katrín Jakobsdóttir sjálf sem lék sjálfa sig í Áramótaskaupinu. Hafi svo ekki verið, þá er viðkomandi leikkona slíkur snillingur, að hún hlýtur að koma til álita í Óskarinn, alla vega Bafta. Já, nei góða mín, í alvöru talað þá var þetta ágætt. Það hefði séra Baldur ábyggilega sagt!
Að leika sjálfa sig gera margir alveg ótrúlega vel. Þetta gerir Trump á hverjum degi á Twitter og fer á kostum. Þó ólíku sé saman að jafna, má vel benda á íslensku fyrirtækin sem rannsaka sig sjálf. Þau gera það ótrúlega vel með innri endurskoðun. Eru oft í góðu samstarfi við saksóknarann í sjálfsskoðuninni eins og eitt þeirra tilkynnti um daginn. Þetta tekur auðvitað 5 – 10 ár. Og þá er allt gleymt og grafið. Þótt fyrr hafi verið. Er þetta kannski hinn svokallaði íslenski Hræringur og vitleysa eins og Guðbergur okkar nefnir, á erlendu máli Ambivalence?
En sumsstaðar erlendis, t. d. í Namibíu af öllum löndum, virðast menn ekki komast upp með slíka dellu.
Auðunn vestfirski