Ísafjörður: Skriðusérfræðing vantar fyrir Veðurstofuna

Sérfræðingar Veðurstofunnar skoða steininn.

Veðurstofa Íslands auglýsir eftir skriðusérfræðingi í fullt starf á Úrvinnslu-og rannsóknarsviði . Á sviðinu starfa um 50 manns við ýmis spennandi þróunar- og rannsóknarverkefni er tengjast veður- og loftslagsrannsóknum, ofanflóðahættumati, jökla-, vatna- og haffræði, jarðskorpuhreyfingum og eldgosum. Veðurstofa Íslands er sömuleiðis leiðandi stofnun í vinnu við áhættumat í tengslum við náttúruvá og er vinna við áhættumat tengdum flóðum, ofanflóðum og eldgosum sífellt stærri hluti af verkefnum sviðsins.

Gert er ráð fyrir að skriðutíðni geti aukist með hlýnandi loftslagi og samhliða þeirri þróun kallar aukinn fjöldi ferðamanna einnig á úttekt á skriðuhættu á fjölmennum ferðamannastöðum. Þessar aðstæður krefjast aukinnar kortlagningar og vöktunar á óstöðugum hlíðum. Nýjar aðferðir í mælitækni og fjarkönnun hafa verið að ryðja sér til rúms á síðustu misserum á þessu sviði og eru mörg tækifæri til frekari þróunar.

Starf skriðusérfræðings fellur undir fagsvið ofanflóða en samtals koma um 10 manns að vinnu við ofanflóð á stofnuninni og eru flestir starfsmennirnir staðsettir á Snjóflóðasetri Veðurstofunnar á Ísafirði. Saman vinna þeir að hættumati, vöktun og rannsóknar- og þróunarverkefnum tengdum ofanflóðum, þ.m.t. skriðumálum.

DEILA