Guðmundur Gunnarsson, fráfarandi bæjarstjóri fær laun í sex mánuði við starfslok. Daníel Jakobsson segir að það sé í samræmi við ákvæði í ráðningarsamningi hans.
Daníel segir að ástæður samstarfsslitanna sé að meirihlutinn og Guðmundur höfðu ólíka sýn á verkefnin og það hafi orðið sameiginleg niðurstaða að láta samstarfinu lokið. Hann vildi ekki gefa nánari skýringar á því hvort hin ólíka sýn sneri að málefnum eða starfsháttum.
Um aðkomu sína að málinu sagði Daníel að hann hefði verið í leyfi í 8 mánuði og væri nýkominn til starfa aftur. Hann hefði aðeins setið tvo bæjarráðsfundi og hefði varla haft neina aðkomu að samstarfinu síðustu mánuði.
Sækist ekki eftir bæjarstjórastarfinu
„Ég er ekki að sækjast eftir því að verða bæjarstjóri og það stendur ekki til“ segir Daníel og vísar til þess að hann er að huga að öðrum verkefnum.
Hann vildi ekkert segja um tölvupóst sem Guðmundur sendi á bæjarfulltrúa og sagði að náðst hefði samkomulag um starfslok og einblína ætti á það fremur en það sem gert er í hita leiksins. Sagðist Daníel að lokum óska Guðmundi velfarnaðar í því sem hann tæki sér fyrir hendur.