Gunhild Thorsteinsson F. 15. júlí 1878 á Ísafirði. D. 1948.
Öndvegisverk: Fiskiþvottur, Sólsetur við Horn, Brúin yfir Elliðaárnar.
Hver er munur á iðn og list? Stórt spurt og sitt sýnist hvurjum. Ástæðan fyrir spurningunni er sú að þessi lína kemur oft við sögu þegar talað er um ljósmyndara. Eru þeir listamenn eða iðnaðarmenn? Í eldri söguritum eru þeir oftar en ekki flokkaðir í iðnaðardeildinni. Í dag er þó algengara að þeir flokkist sem listamenn enda er ljósmyndin list.
Einn af frumherjum ljósmyndalistarinnar er ísfirska listakonan Gunhild Augusta Thorsteinsson. Hálf dönsk einsog nafnið gefur til kynna en móðir hennar var Amelia F. V. Rasmundsdóttir Löve. Faðirinn Þorsteinn Thorsteinsson, bakari og kaupmaður, sem settist að á Ísafirði og byrjaði þar að höndla. Seinna gjörðist hann svo þingmaður Ísfirðinga þegar hann tók við sæti þjóðhetjunnar frá Hrafnseyri, 1879. Sama ár lánaði kaupmaðurinn pakkhús sitt á Silfurtorgi á Ísafirði til leiksýninga. Sýnt var leikrit heimaskáldsins Magnúsar Jochumssonar, bróður þjóðskáldsins, Brúðarhvarfið. Pakkhúseigandinn seldi veitingar milli þátta og drukku víst bæði þeir á senu sem í sal stíft. Engum sögum fer þó af leiknum. Bróðir Ameliu, Frederik, kemur frá Danmörku og sest að hjá þeim á Ísafirði hvar hann opnar ljósmyndastofu. Líklega þá fyrstu á Ísafirði. Hvort áhugi Gunhild á ljósmyndalistinni hafi vaknað þarna er ekki gott að segja en allavega siglir hún utan og innritast í nám í ljósmyndalist í Kaupmannahöfn árið 1899.
Kemur svo heim að námi loknu árið 1901 og byrjar að mynda af kappi. Einkum sérhæfir hún sig í myndum af fólki, portrett myndum, hvar fólk er uppstyllt og uppstrílað. Einnig myndar hún ýmsa merka viðburði og ferðast víða um landið ávallt með myndavélina á lofti. Margar mynda hennar eru einmitt teknar af sjó því á þessum tíma var fararskjótinn strandferðaskipin sem silgdu með fólk sem vörur millum borgar og byggðar.
Árið 1905 opnar hún loks ljósmyndastofu ásamt frænku sinni Helgu Thorsteinsson, dóttur Péturs er oft er nefndur Bíldudalskóngurinn. Stofu þessa nefndu þær Gunhild Thorsteinsson & co. Húsnæðið var á Hverfisgötu og var sérstaklega byggt með starfsemina í huga. Því það var með stórum gluggum til að fá birtuna sem til þurfti til að ljósmynda enda takmarkað rafmagnið á þessum tíma. Tveimur árum síðar kvæntist Helga og eftir það eða til 1911 rak Gunhild stofuna ein. Hún var þó ekki ein að störfum því árið 1908 auglýsti hún í einu blaðanna.:
Stúlka frá góðu heimili getur fengið að læra myndasmíði í myndastofunni á Hverfisgötu 4. Gunhild Thorsteinsson.
Myndavél Gunhild var stór og mikil einsog tíkaðist þá með harmonikku ívafi. Myndirnar voru teknar á plötur en því miður hafa ekki margar þeirra varðveist eða eitthvað rétt um hundraðið. Margar tók hún portrett myndirnar af fólki en einnig af sérstæðu fólki einsog Ástar-Brandi, Sæfinni með sextán skó og Oddi sterka. Sumir mættu með bestu vini sína, gæludýrin, á ljósmyndastofuna og hafa varðveist nokkrar skemmtilegar myndir hennar af bæði hundum og köttum. Hún ferðaðist mikið og myndaði þorp, sem bæji, fólk að störfum og þekkta ferðamannastaði. Fljótlega fór hún svo að gefa myndirnar sínar út á póstkortum er hún lét prenta í Þýskalandi. Það er kannski þess vegna sem verk hennar hafa verið þjóðinni svo kunn og kær. Þó margir viti kannski ekki fyrr en þeim er sagt það að þessi og þessi ljósmynd sé eftir þennan myndasmið. Enda rita þeir ekki nafn sitt í annað horn verksins einsog kollegar þeirra í myndlistinni gera við sín listaverk.
Víst er ljósmyndin oft besta heimildin um ákveðna tíma og stund. Þekktasta mynd Gunhild er sannlega í þeim hópi. Mynd af konum við fiskþvott á stakkstæðinu á Bíldudal. Enn þegar horft er á þá mynd verður manni kalt og í raun hrýs hugur við þær vinnuaðstæður sem þá voru. Um leið gleðst maður yfir því hve okkur hefur þó fleygt fram. Það fer nefnilega ekki öllu aftur þó sumir vilji dvelja við það heygarðshorn að allt hafi verið betra í gamla daga. Þarna sannar ljósmyndalistin tilgang sinn einsog svo oft áður. Það eru einmitt þessar myndir Gunhild af vinnandi fólki sem hafa svo sterk áhrif á okkur í dag. Einsog önnur mynd hennar er gott dæmi um. Brúin yfir Elliðaárnar, sem sýnir mann á hesti í upphafi ferðar yfir nefnda brú og á eftir teymir hann hestalest hvar síðasti klárinn ber langan og öruggulega mjög þungan tréplanka á baki sér.
Árið 1911 lokaði Gunhild ljósmyndastofunni en hélt þó áfram að mynda. Meðfram listinni vann hún fjölbreytt störf m.a. við verslun og var umboðsmaður fyrir legsteina frá firmanum Hohs Grönseth & co. Einsog með margan er dvalið hefur í Kaupmannahöfn þá togar sú borg ávallt í mann enda þar með eindæmum gott að búa. Ekki minnkaði það heldur að Gunhild var jú dönsk í móðurættina. Hún kvæntist aldrei og því fátt sem batt hana heima svo hún flutti loks til kóngsins Hafnar og þar andaðist hún.
Elfar Logi Hannesson