Í veðurhamförum vikunnar erum við enn og aftur minnt á hvað við eigum stórkostlegar björgunarsveitir og sjálfboðaliða sem ávallt eru til taks. Fólk sem stekkur af stað út í ofsaveður til að hjálpa náunganum. Auk björgunarsveita leggja margir starfsmenn orkufyrirtækja og fleiri stofnana nú nótt við dag við erfið skilyrði til að koma á rafmagni. Fyrir allt þetta frábæra fólk erum við þakklát og sendum því okkar bestu strauma.
Við verðum að gera skýlausa kröfu um örugga og trausta innviði um allt land. Grunnkerfin verða að vera í lagi og það er okkar sameiginlega verkefni núna að byggja þá upp og viðhalda svo sómi sé af.
Einn fjölmargra funda sem ég átti í vikunni var fundur með fjölmiðlafólki frá Austur Evrópu. Þau tóku við mig viðtal og veltu eðlilega upp spurningunni: Hvernig stendur á því að verkafólk frá Austur Evrópu getur ekki verið öruggt um að fá sanngjörn laun og góðan aðbúnað í velferðarþjóðfélaginu Íslandi? Í hugum margra er Ísland fyrirmyndaríki. Jafnrétti mælist hvergi meira (fer svolítið eftir mælikvörðum) og allir eiga að njóta sanngirnis og lífsgæða. Ég svaraði því til að þar sem græðgi og vilji til að misnota fólk er til staðar getur verkafólk ekki verið óhult. Við hins vegar reynum eftir fremsta megni að þétta í götin og gæta þess að það borgi sig ekki að misnota fólk í vinnu. Að atvinnurekendur sem ætla sér að nýta sér fólk í bágri stöðu þurfi að gjalda fyrir það.
Við höfum verið háð aðstoð frá erlendu verkafólki til að reka okkar samfélag á undanförnum árum og eigum að vera þakklát þeim sem hingað koma til að leggja hönd á plóg. Það er ömurleg tilhugsun að einhver þeirra verði fyrir misnotkun í vinnu svo jaðrar á köflum við þrældóm. Eitt af stóru verkefnunum á borði aðila vinnuarkaðarins og stjórnvalda er einmitt að breyta lögum og verklagi þannig að eftirlit verði meira, aðgengi að upplýsingum betra, þjónusta við fólk af erlendum uppruna bætt og síðast en ekki síst, að viðurlög við launaþjófnaði og kjarasamningsbrotum verði þannig að það sé einfaldlega ekki þess virði fyrir þannig innréttaða atvinnurekendur að brjóta á fólki. Við hljótum að geta sammælst um slíkt og hrint í framkvæmd betri umgjörð utan um heilbrigðan vinnumarkað á nýju ári. Þessa innviði þarf líka að bæta.
Gleðilega aðventu,
Drífa Snædal
forseti ASÍ