Útlit er fyrir að gangi í norðanrok jafnvel ofsaveður með snjókomu á vestanverðu landinu á morgun, þriðjudag. Fólki er bent á að fylgjast vel með spám þar sem búist er við einu versta veðri vetrarins hingað til en gular viðvaranir eru í gildi víða, segir í viðvörun frá Veðurstofu Íslands.
„Á Grænlandshafi er lægð að nálgast landið og úrkomusvæði hennar gengur norðaustur yfir landið í dag. Fer því fljótlega að snjóa suðvestanlands, en síðar slydda eða rigning á þeim slóðum. Hægur vindur norðaustan til fram á kvöld, en fer þá einnig að hvessa og snjóa þar. Hlýnar nokkuð í veðri í dag.
Í nótt dregur síðan til tíðinda þegar önnur kröpp lægð sunnan úr hafi kemur upp að Austfjörðum. Lægðirnar tvær valda síðan í sameiningu ört vaxandi norðanátt á landinu. Kominn verður stormur eða rok og farið að snjóa norðan til í fyrramálið, en mun hægari vindar og bjartviðri syðra. Eftir hádegi herðir enn á norðanáttinni og bætir talsvert í snjókomu nyrðra, en hvessir einnig fyrir sunnan. Vindstyrkur getur náð ofsaveðri við norðvesturströndina á morgun og jafnvel víðar.
Vestfirðir
Norðanstórhríð (appelsínugult ástand)
10. des. kl. 05:00 – 11. des. kl. 08:00
Útlit er fyrir norðaustan- og síðan norðanrok, jafnvel ofsaveður, (23 til 32 m/s) með snjókomu eða éljum og skafrenningi. Búast má við víðtækum samgöngutruflunum og tjóni og/eða slysum ef aðgát er ekki höfð og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Fólk er beðið um að fylgjast vel með veðurspám.
Strandir og Norðurland vestra
Norðanhríð (appelsínugult ástand)
10. des. kl. 07:00 – 11. des. kl. 14:00
Útlit er fyrir norðaustan- og síðan norðanrok, jafnvel ofsaveður, (23 til 32 m/s) með snjókomu eða éljum og skafrenningi. Búast má við víðtækum samgöngutruflunum og tjóni og/eða slysum ef aðgát er ekki höfð og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Fólk er beðið um að fylgjast vel með veðurspám.