Opin listavinnustofa á Þingeyri

Föstudaginn næstkomandi, 20. desember kl. 16:00-17:30, verður opin listasmiðja í Grunnskólanum á Þingeyri. Þar gefst ungum sem öldnum tækifæri til að fá reynslu og innblástur af því að mála lítil listaverk undir leiðsögn listakonu. Það er óþarfi er að hafa nokkra reynslu af því að mála, heldur er ætlunin að hafa gaman, prófa sig áfram með liti og form og kynnast nýrri nálgun á umhverfið og hlutina í kringum okkur.

Myndistarkonan Anne-Louise Ciel er frá Nýja Sjálandi. Hún hefur í nokkur skipti heimsótt Ísland en síðustu fjórar vikurnar hefur hún dvalið á Þingeyri í listaresidensíu Simbahallarinnar. Anne-Louise býður fram krafta sína í þessari vinnustofu með þakklæti fyrir góðar móttökur íbúa Þingeyrar og vonar að sem flestir sjái sér fært að mæta.

Stundin er tilvalin fyrir fjölskyldur að koma saman, njóta og gera eitthvað skemmtilegt á aðventunni. Hver veit nema einhverjar jólagjafir líti dagsins ljós, ódauðleg listaverk verði til eða myndlistasnillingar framtíðarinnar stígi sín fyrstu skref!

Námskeiði er frítt og allir eru velkomnir!

DEILA