Það er til fólk sem saknar hinna gömlu góðu daga og fullkomins frelsis til athafna. Því fólki hentar ekki allt það sem nútímanum fylgir og kýs að sneiða hjá ýmsu því sem nú þykir rétt í umgengni við náttúruna. Í þá gömlu góðu daga trufluðu ekki reglur um umhverfisvernd þá athafnasömu eða höfðu áhrif á þeirra efnahag. Rusli var sturtað úr skipum í hafið, spilliefni brennd á opnum ruslahaugum við hvern bæ og þorp og athafnasamt fólk fékk almennt athafnafrið til sinna hugðarefna og fór sínu fram. Lífið var einfaldara og betra þá í hugum sumra.
Í þá gömlu góðu daga sem sumir sakna var ekkert athugavert við ýmsa hegðun sem nútímafólk er sammála um að gangi ekki og er tekið á í nútímasamfélagi með lögum, reglum og eftirfylgni. Umhverfisvernd er stærsta mál nútíðar og framtíðar, líka í efnahagslegum skilningi og allir sem eru í tengslum við samtíma sinn skilja þá staðreynd. Yfirvöld eiga að vernda gegn hegðun þeirra athafnasömu sem illa rekast innan reglna og stytta sér leið í förgun úrgangs. Vernda um leið þá sem ekki hafa af sér brotið og tryggja að löghlýðnir hljóti ekki skaða af hegðun þeirra sem engu hlífa.
Á Vestfjörðum er þrátt fyrir fögur fyrirheit yfirvalda, sveitarfélaga og atvinnulífs komin hefð fyrir að umráðamaður jarðarinnar Garðstaða í Súðavíkurhreppi bjargi þeim sem ekki hafa dug eða vilja til að leysa úr sínum úrgangsmálum. Hann hirðir upp eftir samborgara sína bílhræ, rusl og úrgang, safnar saman á Garðstöðum og mengar þar sitt umhverfi án afskipta yfirvalda, sem hafa um áratugaskeið snúið blinda auganu að því sem þar viðgengst. Starfsemin fegrar jú allra nánasta umhverfi þeirra sömu yfirvalda og þá eru ýmsir sáttir. Það þýðir ekki að þetta fyrirkomulag sé eðlilegt eða til fyrirmyndar fyrir samfélag Vestfjarða sem hlýtur af þessum afslætti við eðlilega hegðun mikinn skaða.
Umhverfisvernd er hér kastað fyrir róða og þeir sem þjónustuna nýta brjóta líklega ýmis lög. Allur þessi úrgangur fyrirtækja og einstaklinga á að fara sína leið í flokkun og endurvinnslu og spilliefni má einungis meðhöndla á stöðum sem hafa mengunarvarnir og starfsleyfi. Úrgang og spilliefni má ekki brenna á víðavangi. Þeir sem skjóta sér fram hjá förgun og úrvinnslu úrgangs eftir lögboðnum leiðum og greiðslu skilagjalds, þar sem við á, eru að minnka eigin kostnað. Kasta ábyrgð af umhverfinu og afleiðingum á aðra. Það getur ekki verið lausnin í nútímalegu samfélagi Vestfjarða sem rekur metnaðarfullan sameiginlegan boðskap um hreint, óspillt umhverfi, nútímalegt samfélag og heiðarleika í atvinnulífi.
Það er alvarlegt þegar markaðsleg ímynd og raunveruleikinn stangast á og auðvelt er að sjá í gegnum. Slíkt getur haft mjög slæm áhrif á ímynd fjórðungsins og alls atvinnulífs. Það ástand sem sumir íbúa Vestfjarða verja á Garðstöðum er alvarleg tímaskekkja og langt í frá hagfellt fyrir heildarhagsmuni Vestfirðinga. Allt skynsamt fólk sem er annt um framtíð Vestfjarða veit að nú er mál að linni.
Guðmundur Halldórsson frá Ögri