Hörfar nótt um hænufet

Viðtal í sjónvarpinu við formann Húseigendafélagsins hefur vakið athygli landsmanna. Formaðurinn formælti sem mest hann mátti skötuáti og ólykt sem því fylgdi og kallaði athæfið hryðjuverk.

Indriði á Skjaldfönn hafði þetta um það að segja undir yfirskriftinni:

Heimur versnandi fer:

 

Á Þorláksmessu er þrengt að mér

og þvert úr götu,

ef hryðjuverk það orðið er

að elda skötu.

 

Skömmu fyrir jól birtist skoðanakönnun sem sýndi Sósíalistaflokkinn með fylgi upp á 5% eða meira. Indriði kættist við:

Þessi mútuþæga þjóð

þarf að feta nýja slóð

áður hún er alveg sokkinn.

Eflum Sósíalistaflokkinn.

 

Vinstri grænir fengu þessa sneið frá Indriða, sem hann nefnir Forsætisráðherrauppskrift:

 

Sækir þú í spillingu

seðlaþvott og mútur

færðu að verða í fyllingu

forsætisráðherrahrútur.

 

Ef þú makkar eins og óð

og ekki talin skræfa

færðu að verða fín og góð

forsætisráðherratæfa.

 

Fyrir jólin sendi Indriði þessa jóla- og áramótakveðjur :

 

Hörfar nótt um hænufet,

heldur lengist dagur.

Óska þess ég ykkur get

að eflist rím og bragur.

DEILA