Vinsamlegast talaðu íslensku, takk

Ísland er fjölmenningarsamfélag. Á Vestfjörðum er til að mynda um 15% fólksfjöldans af erlendu bergi brotinn. Það er staðreynd hvort sem manni líkar betur eða verr og líkast til kemur Ísland til með að vera fjölmenningarsamfélag í framtíðinni líka. Allavega er ólíklegt að Frón hverfi aftur til þess tíma þegar menningin var fremur einsleit og íslenskan sem töluð var hljómaði meira og minna eins. Á Íslandi var enda ekki hægt að tala um ólík tungumál eftir landssvæðum, eins og t.d. í Þýskalandi eða á þýska málsvæðinu, þótt einhvern áherslumun væri að finna og megi máske enn finna.

Nú er öldin önnur. Ekki hvað það áhrærir að skotið hafi upp kollinum mállýskur svo frábrugðnar hver annarri að örðugleikar skapist. Nei, eins og við vitum, eða ættum að geta gert okkur í hugarlund, þá er umtalsvert af því, þessa dagana, að íslenska sé töluð með mismunandi hreim og töluvert af því að beygingarvillur láti á sér kræla sem ekkert hafa með hina svokölluðu þágufallssýki að gera. Segjum bara að málið sé talað á ólíkari máta en oft hefir verið í gegnum tíðina. Vissulega kann á tíðum að vera vandkvæðum bundið að skilja þessa nýju íslensku. Það er satt. Framburður er oft og tíðum óvanalegur í eyrum innfæddra, málfræðireglur ekki alveg á tæru né er málnotkun alltaf í samræmi við málvenjur. Og svo kann að vera að málnotandi hafi hreim.

Er því skiljanlegt að stundum sé gripið til lingua franca nútímans, ensku. Það auðveldar oft málið. En er rétt að gjöra svo? Auðvitað kann slíkt að ráðast af aðstæðum, hve nauðsynlegt sé að allt skiljist. Og vissulega eru og Íslendingar almennt svo vel að sér í enskri tungu að þeir geti gert sig þokkalega skiljanlega á því máli.

Spurningarnar sem við ættum að spyrja okkur eru kannski stærri: Hve miklu máli skiptir það okkur að íslenska sé almennt töluð á Íslandi? Hvað viljum við til þess gera að erlent fólk öðlist færni í málinu, næga færni og skilning til að geta verið þátttakendur í íslensku samfélagi í sínu víðasta samhengi?

Séu svörin við þessum spurningum þau að það engu skipti, að við séum ekki tilbúin að gera nokkuð til að útlendingar öðlist betri skilning og færni þá verður svo að vera. En þá ætti sá „réttur“ að fyrirgerast að kvarta undan fákunnáttu þeirra. Kannske er okkur alveg sama þótt enskan taki smátt og smátt yfir og íslenskan þynnist út eða hverfi. Þá er það bara þannig og status quo málið. Kannski viljum við alfarið losna við útlendinga af landinu, hverfa andlega aftur um 200 ár og tala „hreina“ íslensku við þá sem fæddust í alíslenskar íslenskar fjölskyldur. Þá erum við að berja hausnum við stein.

Ef það aftur á móti skiptir okkur miklu máli að fólk tali almennt séð íslensku og aðlagist íslensku samfélagi, öðlist skilning á því, verði hluti af því þá er sitthvað sem við getum gert.

Það að flytjast búferlum á erlenda grundu getur verið vandkvæðum bundið. Mikið nýtt ber fyrir augu, glíma þarf við menningarmun, skrifræði, fordóma (í báðar áttir). Lykillinn sem hjálpar til við glímu þessa er tvímælalaust tungumálið. Aðalvandamál margra sem vilja læra tungumál þess lands hvar þeir búa er tímaleysi. Fólk er við vinnu og vinnur kannski mikið og að vinnudegi loknum er ekki alltaf tekið út með sældinni að ætla sér að brjóta heilann um málfræðireglur, framburð og orðaforða. Það að læra tungumál tekur tíma. Ferlið við að læra íslensku mætti líkja við maraþon, sumhver önnur tungumál eru þá styttri hlaup.

Auðvitað er fólk misfært um að takast á við nýtt tungumál. Aðstæður og uppruni skipta höfuðmáli, menntun og hvar mann eða konu bar í heiminn. Hvar viðkomandi vinnur, hvort viðkomandi eigi innfædda vini, hvort viðkomandi fái liðsinni og mæti jákvæðu viðmóti. Hafi og mann borðið í heiminn í Japan eru færri atriði sem hjálpa manni við viðleitnina en hafi maður eða kona litið dagsins ljós í Danmörku. Þetta er augljóst sé hugurinn leiddur að því en vill samt gleymast í hita dagsins þegar kemur að viðhorfi Íslendinga til útlendinga sem leitast við að tala íslensku.

Hvað getum við gert til að hjálpa fólki í viðleitninni? Að fenginni reynslu undirritaðs, en hann hefir fengist við að kenna erlendu fólki íslensku um nokkurt skeið, þá skiptir mestu máli að málið sé notað. Sé mál ekki notað liggur í augum uppi að illmögulegt reynist að taka framförum. Því ætti meginreglan í samskiptum við fólk sem er að læra málið að vera sú að sé maður ávarpaður á íslensku ætti maður að halda áfram á íslensku.

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson

[innskot]

Reyndar ætti sú regla að vera við lýði að þeir sem ekki tala íslensku ættu að spyrja (á ensku eða íslensku) hvort viðkomandi tali eða vilji tala ensku. Það er dónaskapur að ætla annað. Undirritaður hefir oft staðið sig að því, og skammst sín ekki fyrir það, að tala bara íslensku við þá sem vinda sér upp að honum og hefja spjall á ensku. Hann reynir þó ávallt að sína ítrustu kurteisi og lætur aðstæðurnar ekki skaprauna sér þannig að þess berist merki.

Nú getur vel verið að skilningi kunni að vera ábótavant, að telja megi fyrir víst að hluteigandi aðili eigi erfitt með að skilja orðfærið. Þá er gott að hafa í huga að þetta er móðurmál okkar sem þýðir að við ráðum yfir fjölmörgum leiðum til að tjá okkur um sama hlutinn, við getum einfaldað og stytt setningar, einfaldað orðaforða (notað samheiti), einfaldað málfræði (reynt að tala í nefnifalli), við getum hægt á okkur, notað hendur og fætur, svipbrigði og svo framvegis. Hið eina sem þarf er meðvitund um við hvern maður talar, um hvernig maður beiti tungunni. Sú beiðni um að tala ensku ætti alltaf að koma frá þeim sem er að læra málið.

[innskot]

Reglan ætti að vera sú að maður tali alltaf íslensku uns maður sé beðinn um annað, þá getur maður tekið afstöðu til þess.

Aldrei ætti Íslendingur (eða sá sem veldur íslensku máli) að sýna aðila, segjum í þjónustugeiranum, ókurteisi eða agnúast í viðkomandi fyrir að tala ekki málið. Þeir sem slíkt gera eru ekki merkilegur pappír. Maður veit oftast ekkert um aðstæður aðilans. Hann gæti hafa komið til landsins í gær. Allajafna eru samskipti í þessum aðstæðum ekki flókin og ætti maður alveg að geta gert sig skiljanlegan með því að notast við íslensku. Undirritaður leitast t.a.m. alltaf við að tala íslensku þótt hluteigandi aðili tali ekki málið. Þetta er nú einu sinni Ísland og þar er opinbert mál íslenska og því ætti að vera sjálfsagt mál að maður fái að nota móðurmál sitt. Aukinheldur ætti að vera á ábyrgð vinnuveitandans að starfsfólk tali málið.

DEILA