Vestfirskir listamenn : Jón Thoroddsen

Jón Thoroddsen

  1. 5. október 1818 á Reykhólum. D. 8. mars 1868 á Leirá.

Öndvegisverk: Ó fögur er vor fósturjörð, Piltur og stúlka, Maður og kona.

„Ólygin sagði mér, en hafðu mig samt ekki fyrir því.“ Hvur kannast ekki við þessi fleygu orð eða frekar sögur. Svo kallaðar gróusögur sem eru einmitt kenndar við sögupersónuna Gróu. Gróu á Leiti í skáldsögunni Pilt og stúlku eftir Jón Thoroddsen. Skáldskapurinn er einmitt áhrifaríkastur þegar hann dregur upp mynd af okkar eigin þjóð- og mannlífi. Líklegt má telja að Gróa skáldsins hafi átt sér fyrirmynd jafnvel einhver gróan úr hans heimasveit á Reykhólum. Listin verður ekki síður sterk þegar hún speglar lífið sjálft og eigi leiðinlegt þegar við sjáum það í spéspegli einsog skáldið Jón var þekkt fyrir. Það er hinsvegar staðreynd að önnur af hans frægu sögupersónum, Hjálmar tuddi, átti sér ákveðna fyrirmynd. Nefnilega flækinginn og farndleikarann Hjálmar Þorsteinsson frá Arnarfirði. Auknefndur Hjálmar goggur eða pylsa Hjálmar því hann vildi gjarnan sofa með kvennmanspyls yfir sér. Svo vel lýsir Jón sögupersónum sínum að þær birtast lesandanum ljóslifandi. Nægir að nefna séra Sigvalda í Mann og konu. Hefur þar kannski eitthvað að segja túlkun Brynjólfs Jóhannessonar á klerkinum klóka á leiksviðinu löngu seinna.

Jón Thoroddsen var okkar fyrsta skáldsagnaskáld en hann var miklu meir en það því hann fékkst einnig við ljóðin.

 

Barist á víg- og ritvelli

Jón Þórðarson Thoroddsen var af góðum ættum en var sendur í fóstur aðeins þriggja vetra. Einsog þá var siður var hlutverk hans þó löngu ákveðið skyldi hann verða prestur eða sýslumaður. Því er honum fljótlega komið í vist hjá prestum hér og hvar m.a. hjá síra Sigurði Jónssyni á Rafnseyri. Að loknu prófi frá Bessastaðaskóla gjörðist hann heimiliskennari á Hrafnagili í Eyjafirði. Þar er nú heldur betur fagurt um að litast í fyllsta skilning þess orðs enda varð hann ástfanginn af heimasætunni. Þau trúlofuðust enda ljóst að hún gengi eigi lengur einsömul en einhvernvegin skiljast samt leiðir. Jón fer utan og hitti hann eigi frumburð sinn fyrr en löngu síðar.

Leiðir þess tíma hjá Íslendingum lágu allajafna til Danmerkur til kóngsins Kaupmannahafnar til að mennta sig. Næstu níu árin er Jón þar við laganám án þess þó að ljúka prófi. Enda var hann einsog margur listamaðurinn með hugann við eitthvað annað en tölur og lagastaf. Það fór þó ekki mikið fyrir honum meðal Íslendinganýlendunnar í kóngsins enda hart barist um athyglina þegar samtíðarmenn þínir eru kappar á borð við Jón Sigurðsson, Jónas Hallgrímsson og Grím Thomsen. Kannski var ástæðan sú að skáldskapurinn hafði fangað hans hug því 1847 birtist í fyrsta sinn á prenti ljóð eftir Jón, Kveðja. Fleiri ljóð birtust í blaði er hann gaf út sjálfur ásamt Gísla Brynjúlfssyni, og þeir nefndu Norðurfari.

Öllum að óvörum skundar Jón svo yfir á allt annan völl nefnilega vígvöllin. Skráir sig sem sjálfboðaliða í her Dana og barðist þar í eina fjóra mánuði, felldi einn og særði annan. Að hersetu lokinni tók önnur seta við: „Sama árið, 1850, sem ég kvongaðist valdstjórninni og gjörðist tollheimtumaður, var á kvisti í Kaupmannahöfn fæddur fugl. Faðirinn gekkst við faðerninu og nefndist J. Þ. Thoroddsen. Hann lét hann vatni ausa, svo hann gæti synt í prentsmiðju Möllers. Hlaut barnið það heiti Piltur og stúlka.“

Þessi saga sem er um leið fyrsta skáldsaga Íslands kom út í apríl 1850. Aðeins fimm vikum síðar fer höfundurinn aftur til Íslands enda pyngjan tóm en próflaus er hann. Eitthvað var Jón vel tengdur því honum er úthlutað sýslumannsembætti Barðastrandasýslu. Gengur þar að eiga Jónu Kristínu Ólínu Þorvaldsdóttur en þó ekki fyrr en hafði farið aftur utan til að ljúka prófi sem hann náði nú með glans. Börnin áttu þau 8 en aðeins helmingur þeirra náði fullorðinsaldri þeirra á meðal Skúli Thoroddsen. Seinna gjörðist Jón sýslumaður í Borgarfirði. Sagt var að Jón hafi verið ákveðinn og fastur fyrir í embættinu en þó vinur alþýðunnar. Enda sýndi hann það oft sinnis í verki m.a. þegar hann kom Hjálmari goggi, tudda, til bjargar í sínum hrakkningum. Sögur hans bera einmitt mikin alþýðusvip og má með sanni flokka sem sannar alþýðusögur.

Sögurnar eru þó eigi nema tvær áðurnefnd Piltur og stúllka og svo Maður og kona sem hann lauk þó eigi við. Því hann var allur áður en sögunni lauk aðeins hálfrar aldar gamall. Það hefur svo haft sitt að segja að báðar sögurnar rötuðu á leiksviðið og nutu fádæma vinsælda. Eigi er þó allt talið því ljóð Jóns hafa einnig lifað með þjóðinni. Hver kannast ekki við slagara á borð við Krummavísur, Vorið er komið, Ó fögur er vor fósturjörð og svo ótal, ótal, fleiri.

Þó seint sé, en þó við hæfi, að þakka skáldinu verkin og við gjörum það með orðum hans, Gróu: Guðsást fyrir mig og nefið á mér.

Elfar Logi Hannesson

Aðalheimild: Vísindavefurinn,  Morgunblaðið 20. 10 1968. Jón Thoroddsen skáld 150 ára minning.

 

DEILA