Þann 25. nóvember n.k. verður Snerpa ehf 25 ára. Að því tilefni mun verða afmælisþema vikuna 25.- 29.nóvember. Afslættir verða á völdum vörum og fleira skemmtilegt til að minna á áfangann. Á föstudeginum, 29.nóvember, verður síðan boðið upp á léttar veitingar milli 16:00 – 18:00 í versluninni okkar og eru allir velkomnir og hvattir til að kíkja í heimsókn og njóta með okkur.
Við hvetjum fólk til að fylgjast vel með á samfélagsmiðlum og vera með í fögnuði okkar í anda eða persónu þar sem án tryggra viðskiptavina væri Snerpa ekki að fagna þessum merka áfanga.
Flestir vita að netþjónusta Snerpu er sú elsta á landinu sem enn starfar undir upprunalegu nafni. Þegar Snerpa var stofnuð, árið 1994, var megin tilgangurinn að veita Vestfirðingum aðgang að internetinu. Á þeim tíma þekktu ekki margir internetið og GSM þjónustu, sem var líka að stíga sín fyrstu skref. Á þessum tíma var notast við Telex og Telefax til samskipta í viðskiptum og ef þurfti að koma gögnum á milli heimsálfa eða jafnvel bara í næsta sveitarfélag.
Þegar farið var af stað, fyrir 25 árum, voru stofnendur ekki með mikla peninga á milli handanna en þeim mun meira af eldhug og trú á verkefnið. Það átti eftir að koma í ljós að þörf var fyrir þjónustuna og sífellt fleiri notfærðu sér hana og viðskiptavinum fjölgaði. Fyrirtækið stækkaði ekki að ráði fyrstu árin en tók svo kipp með netbólunni svokölluðu sem náði hámarki um aldamótin. Þá hafði verið stofnaður mikill fjöldi netfyrirtækja um allan heim. Mörg þeirra misstu flugið, svo mörg að talað var um að netbólan hefði sprungið. En Snerpa hélt velli.
Þegar þarna var komið var starfsmannafjöldi hjá Snerpu 18 manns í um 15 stöðugildum og áform voru um að sameina annað fyrirtæki inn í Snerpu. Úr því varð þó ekki og starfsmönnum fækkaði um helming allt til 2004 þegar þeim tók að fjölga aftur. Í dag eru starfsmenn Snerpu 15, 14 í fullu starfi og 1 í hlutastarfi.
Í dag eru hluthafar í Snerpu 11 talsins, þar af 7 núverandi starfsmenn. Reyndar má segja að eigendur séu fleiri þar sem annar stærsti hluthafinn er eignarhaldsfélagið Hvetjandi sem stofnað var að frumkvæði Ísafjarðarbæjar árið 2004. Í gegnum Hvetjanda má því segja að Vestfirðingar allir eigi einnig óbeinan hlut í fyrirtækinu þar sem önnur sveitarfélög á Vestfjörðum eru nú einnig meðal eigenda í Hvetjanda.
Sagan öll verður sjálfsagt sögð síðar en fyrir eigendur og starfsmenn er það mikilvægasta að vita að viðskiptavinir Snerpu hafa verið fyrirtækinu tryggir í gegnum árin og metum við það mikils. Við vonum og trúum því að fyrirtækið okkar eigi eftir að vaxa og dafna áfram og kveðjum stolt fyrsta aldarfjórðunginn og göngum keik inn í framtíðina.
Björn Davíðsson, framkvæmdastjóri og einn af stofnendum Snerpu