Rökræðukönnun um endurskoðun stjórnarskrárinnar verður haldin 9. til 10. nóvember nk. í Laugardalshöll með þátttöku 300 manna hóps hvaðanæva af landinu.
Könnunin er hluti af almenningssamráði um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Rökræðukönnunin tekur fyrir nokkur afmörkuð atriði s.s. ákvæði um embætti forseta Íslands, þjóðaratkvæðagreiðslur og þjóðarfrumkvæði, Landsdóm, breytingar á stjórnarskrá, kjördæmaskiptingu og atkvæðavægi og alþjóðasamstarf.
Rökræðukönnunin fer þannig fram að þátttakendum verður skipt í hópa sem ræða viðfangsefnin út frá rökum með og á móti ýmsum tillögum undir stjórn umræðustjóra. Að loknum umræðum um hvert efni gefst þátttakendum tækifæri á samtali við sérfræðinga í pallborðsumræðum. Viðhorfskönnun fer fram í upphafi fundar og einnig í lok hans og þannig er kannað hvort breytingar verði á viðhorfum fólks við að taka þátt í nánari skoðun, rýni og umræðum um viðfangsefnin.
Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands annast rökræðukönnunina í samstarfi við Öndvegisverkefni um lýðræðislega stjórnarskrárgerð og Center for Deliberative Democracy við Stanfordháskóla.
Þátttakendur í rökræðukönnuninni voru valdir úr hópi þeirra sem svöruðu viðhorfskönnun um stjórnarskrána sem gerð var síðastliðið sumar sem byggði á slembiúrtaki og netpanel Félagsvísindastofnunar.
Ekki er vitað hve margir fulltrúar eru frá Vestfjörðum en ætla má að þeir séu 5-7 ef tekið er mið af íbúafjölda.
Gaman væri að fá að vita hverjir þeir eru.