Pósturinn hefur breytt fyrirkomulagi við flokkun pósts á landsbyggðinni. Eftir breytinguna er allur póstur sem á að fara til dreifingar innan svæðis flokkaður frá á viðkomandi svæði. Fyrir breytinguna var allur póstur fluttur til Reykjavíkur þar sem hann var flokkaður saman með öðrum pósti í póstmiðstöð. Breytingin hefur það í för með sér að meiri hraði verður í afgreiðslu sendinga, pósturinn ferðast mun styttri leið en áður ásamt því að meiri vinnsla fer fram á landsbyggðinni en verið hefur.
„Við vitum að viðskiptavinir voru ósáttir við gamla fyrirkomulagið og vildum mæta ábendingum þeirra með því að breyta þessu. Niðurstaðan er þessi og vonum við að þetta verði til þess að auka ánægju viðskiptavina með þennan hluta þjónustunnar. Okkar helsta markmið er að bæta upplifun viðskiptavina og munum við halda áfram að horfa til ýmissa úrbótaverkefna til að mæta þeirra þörfum. Það má líka segja við séum að gera dreifinguna umhverfisvænni en eftir breytingu þarf póstur ekki að ferðast jafnlangar vegalengdir og þegar hann var flokkaður í Reykjavík. Það hefur mikið gengið á í rekstri fyrirtækisins á síðustu vikum og mánuðum, mikil endurskipulagning hefur átt sér stað og við munum að sjálfsögðu áfram horfa til þess að hagræða í rekstrinum en með það að leiðarljósi að skerða ekki þjónustu. Þvert á móti ætlum við að gera betur í þjónustu við viðskiptavini og kynna fleiri breytingar sem allar eru til þess fallnar að bæta þjónustuupplifun.“
segir Hörður Jónsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Póstsins.