Föstudaginn 15. nóvember frá kl. 11:15 og fram að hádegi verður Grunnskólinn í Bolungarvík opinn fyrir gesti. Þennan dag, kynna nemendur skólans viðfangsefni sín út frá þemanu um „Norræna goðafræði“, en þemadagar standa yfir þessa vikuna.
Að sögn Halldóru D. Sveinbjörnsdóttur skólastjóra hefur mikið starf farið fram í skólanum þessa viku þar sem farið hefur verið í að vinna verkefni tengd norrænni goðafræði í öllum bekkjum skólans. Samvinna hefur verið á milli bekkja í skólanum í þessari verkefnavinnu og samþætting námsgreina hefur verið mikil og má segja að allir nemendur og kennarar skólans hafi tekið virkan þátt.
Foreldrar, ömmur, afar, frænkur, frændur og aðrir áhugasamir íbúar Bolungarvíkur eru hvattir til að líta við og kynnast goðafræðinni út frá sjónarhorni nemendanna.