Laxeldið lyftir Vestfjörðum

Síðustu 20 ára hafa verið Vestfirðingum andsnúin. Það er einkum samdráttur í sjávarútvegi sem hefur valdið alvarlegum búsifjum.  Á sama tíma og hagvöxtur var 75% á landinu á árunum 1998 – 2017 varð samdráttur í efnahagskerfi á Vestfjörðum um 6%.  Á höfuðborgarsvæðinu varð 89% hagvöxtur á þessum 19 árum, á Austurlandi 90% hagvöxtur, á Suðurnesjum 100% hagvöxtur en á Vestfjörðum varð enginn hagvöxtur heldur samdráttur um 6%.

 

Ástæðurnar eru kunnar, nánast allur kvóti vestfirskra fyrirtækja fyrir aldamót var fluttur burt til annarra landshluta. Á eftir bolta kemur barn sagði í auglýsingu tryggingarfélags á sínum tíma. Á eftir kvóta fara störf, tekjur og atvinnutækifæri. Það vita Samherjarnir og Þorbirnirnir og Guðmundarnir vinalausu. Hjarta þeirra slær ekki á Vestfjörðum. Fólki hefur fækkað um 35%, verð á eignum hefur fallið. Á Ísafirði féll verðið frá því að vera 2/3 af verði á höfuðborgarsvæðinu í það að verða 1/3. Í megindráttum er staðan óbreytt.

Minni framleiðni – lakari lífskjör

Þegar mörg arðbær störf fara breytist samsetning atvinnulífsins. Í nýrri skýrslu Byggðastofnunar kemur fram að framleiðni vinnuafls á Vestfjörðum er 70% af framleiðni vinnuafls á höfuðborgarsvæðinu og ekki nema 85% af framleiðni vinnuaflsins utan höfuðborgarsvæðisins. Lakari framleiðni fylgir óhjákvæmilega lakari lífskjör á Vestfjörðum. Það hefur í för með sér að fleiri og fleiri flytja burt og sækja í betri tækifærin. Byggðastonfun bendir á að brottflutingur hafi verið gríðarlegur út af svæðinu.  Samkeppnishæfni Vestfjarða gagnvart öðrum landshlutum er varla til staðar nema gagnvart Norðurlandi vestra.

Vergar þáttatekjur á Vestfjörðum voru aðeins um 35 milljarðar króna 2017. Ef hagkerfið hefði vaxið eins og landsmeðaltalið var hefði orðið aukning um 75% í stað samdráttar um 6%. Það vantar um 30 milljarða króna á hverju ári til Vestfjarða. Þetta endurspeglar þann veruleika að það vantar vel launuð störf fyrir hundruð eða jafnvel þúsund manns. Það vantar tækifæri.

Það hafa Vestfirðingar mátt reyna að yfirlýsingar og heit um bót og betrun frá hendi stjórnvalda hafa reynst innihaldslitlar og snúist meira um smámuni sem litlu sem engu máli skiptir en stóru aðgerðirnar til jöfnunar aðstöðu og uppbyggingar sem kallað hefur verið eftir.

Fiskeldið skapar viðspyrnu

En skýrsla Byggðastofnunar sýnir svo ekki verður um villst að ný atvinnugrein hefur skotið rótum á Vestfjörðum vegna hagstærða náttúrulegra skilyrða og er að breyta þróuninni. Það er fiskeldið. Afturförin hefur verið stöðvuð og hæg framþróun er að eiga sér stað. Rúmlega þriðjungur alls fiskeldis á landinu árið 2017 var á Vestfjörðum. Hvergi annars staðar á landinu er fiskeldið nálægt því magni sem það er á Vestfjörðum. Þýðing fiskeldisins á Vestfjörðum er líka tíu sinnum meiri og rúmlega það en í öðrum landshlutum, nema Suðurnesjum þar sem hlutfallið er sjöfalt.

Framleiðslan í sjókvíaeldinu á Vestfjörðum var 10.000 tonn árið 2017, hún er áætluð 2019 um þriðjungi meiri, um 13.000 tonn, og verður að óbreyttu um 18 þúsund tonn eftir 2 ár. Þegar hafa fiskeldisfyrirtækin fjárfest fyrir um 25 milljarða króna á Vestfjörðum. Framundan er enn meiri fjárfesting, einkum í seiðaeldisstöðvum og vinnslu. Um 300 manns vinna við atvinnugreinina á Vestfjörðum og ætla má miðað við vaxandi framleiðslu sem fyrirsjáanleg er að fjöldinn nálgist það að tvöfaldast á næstu árum.

Þegar hafa eldisfyrirtækin framleiðsluleyfi fyrir um 32 þúsund tonn í vestfirskum fjörðum, áhættumat leyfir 50.000 tonna framleiðslu og burðarþolsmat liggur fyrir upp á 82.500 tonn og eru ekki enn öll vænleg svæði metin, svo sem eins og Jökulfirðirnir.

Ný verðmæti – ný framleiðsla – ný störf og ný tækifæri

Vaxtarmöguleikarnir næstu árin eru því gríðarlegir. Framleiðslan gæti hæglega fimmfaldast frá því sem nú er á innan við tíu árum. Er þá ekki allir vaxtarmöguleikar taldir með. Tekjurnar sem koma inn í íslenskt efnahagskerfi með vaxandi útflutningi á eldisafurðum frá Vestfjörðum koma til með að mælast í tugum milljarða króna á hverju ári og lyfta lífskjörum allrar þjóðarinnar.  Innlendur virðisaukinn verður um helmingur útflutningsverðmætanna meðan fóðrið er að mestu leyti framleitt erlendis. Virðisaukinn hækkar verulega þegar fóðurframleiðslan verður flutt heim. Það er aðeins tímaspursmál hvernær það gerist.  Stór hluti innlenda virðisaukans mun fara inn á vestfirskt efnahagssvæði. Stærð þess mun taka stakkaskiptum.

Þetta er raunhæf framtíðarsýn. Norðmenn, Færeyingar og Skotar hafa ákveðið á grundvelli þess að þeir telja að laxeldið í sjó eigi sér bjarta framtíð á markaðsforsendum að stórauka laxeldið á næstu árum og sækja þannig nýjar tekjur til að bæta lífskjör almennings.

Úrtöluraddir og sérhagsmunir

Á Íslandi vantar töluvert upp á að stjórnvöld hafi slitið sig frá úrtöluröddum og sérhagsmunahópum. Ný löggjöf um fiskeldi setur uppbyggingu fiskeldisins í spennitreyju og torveldar uppbygginguna á Vestfjörðum. Vestfirðingar gjalda þess að of margir stjórnmálaflokkar leggja um of við hlustir þegar háværir en fámennir hópar, einkum á höfuðborgarsvæðinu  vinna gegn fiskeldinu með bæði röngum og villandi málflutningi. Það segir sína sögu að það eru útlendingar sem eru að fjárfesta í atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum og hafa trú á framtíð svæðisins.

Það er verkefnið framundan að vinna aukinn stuðning við atvinnugreinina. Það hefur síðustu ár gengið í rétta átt og almennt viðhorf er  jákvæðara en áður.  Vestfirðingar eiga mikið undir því að atvinnugreinin fái að vaxa og dafna eins og forsendur standa til.

Kristinn H. Gunnarsson

DEILA