Ísafjarðarbær hefur gert samning um kaup á slökkvibifreið fyrir 38,8 milljónir króna vegna Dýrafjarðarganga. Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs. Bæjarstjóri hefur undirritaðs samninginn með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar.
Bifreiðin er af gerðinni Ford F550 árgerð 2019 og skal afhendast 7 mánuðum eftir undirskrift. Bifreiðin afhendist fullfrágengin og tilbúin til notkunar. Seljendur eru Ólafur Gíslason og Co og Eldvarnarmiðstöðin.
Í fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir 2019 segir að haldið verði áfram þeirri endurnýjun búnaðar og tækja slökkviliðsins sem ráðist var í á árinu 2018.
„Þar ber hæst kaup á slökkvibíl fyrir Flateyri sem væntanlegur er í mars 2019. Enn er þörf á
frekari endurnýjun slökkvibíla á Suðureyri og Þingeyri en ekki verður ráðist í þær fjárfestingar á árinu 2019, meðal annars vegna þess að fyrir liggur að semja þarf við Vegagerðina um þjónustu og öryggi vegna Dýrafjarðarganga. Sá samningur mun fela í sér að Vegagerðin taki þátt í kostnaði sem af því hlýst í samræmi við auknar öryggiskröfur.“