Húsnæðisþing: 47 íbúðir í byggingu á Vestfjörðum

Fram kemur í skýrslu Íbúðalánasjóðs , staða og þróun húsnæðismála, sem lög var fram á Húsnæðisþingi 2019 í gær, að 47 íbúðir eru í byggingu á Vestfjörðum. Það er byggt á gögnum frá Þjóðskrá íslands og hagdeild Íbúðalánasjóðs.

Alls eru um 6.000  íbúðir í byggingu á landinu. Þar af eru 2/3 á höfuðborgarsvæðinu og um fjórðungur af þessum 6.000 íbúðum eru í 101 Reykjavík. Mjög er misjafnt hver mikið er i byggingu eftir landssvæðum miðað við mannfjölda.

Á Vestfjörðum, Norðvesturlandi og á Austurlandi eru um 165 íbúðir í byggingu eða rétt tæp 3% af heildinni. Það gerir um 6,6 íbúðir í byggingu fyrir hverja 1.000 íbúa á þessum svæðum en til samanburðar eru þær 17 á höfuðborgarsvæðinu og 29 á Suðurnesjum.

Nýbyggingar á íbúðarhúsnæði  á Vestfjörðum

Á síðustu mánuðum hefur orðið verulegur fjörkippur í nýbyggingu íbúðarhúsnæðis. Sótt hefur verið um lóðir fyrir 83 íbúðir eftir því sem næst verður komist. Framkvæmdum er lokið við þrjár íbúðir og eru í gangi við 18 íbúðir. Úthlutað hefur verið lóðum fyrir 19-21 íbúð að auki. Samtals eru þetta 40-42 íbúðir. Óafgreiddar lóðaumsóknir eru um 40.

Verið er að byggja 13 íbúða fjölbýlishús á Ísafirði og auk þess tvö einbýlishús í Tuguhverfi. Þá hefur nýlega verið byggðar þrjár íbúðir á Reykhólum og voru þær afhentar leigjendum í september. Á Drangsnesi stendur hreppsnefndin fyrir byggingu parhúss. Tálknafjarðarhreppur áformar að byggja 12 íbúðir, einkum  fyrir aldraða.  Þá ákvað hreppsnefnd Súðavíkurhrepps í síðustu viku að hefja byggingu á fimm íbúðum  og er gert ráð fyrir að þær verði fullbyggðar og afhentar í maí 2020.

Í Vesturbyggð hefur verið sótt um lóðir fyrir 45 íbúðir á Bíldudal undir nýbyggingar og úthlutað hefur verið þremur aðilum  lóðir undir 14-16 íbúðir, en framkvæmdir eru ekki hafnar. Á Hólmavík er eitt hús í byggingu.

Það eru sveitarfélögin sem hafa frumkvæði að nýbyggingarátakinu og hafa Tálknafjarðarhreppur og Reykhólahreppur fengið  framlög frá íbúðalánasjóði til greiðslu á 18% af samþykktum byggingarkostnaði.  Ísafjarðarbæ fékk einnig stofnframlag fyrir 11 íbúðum en ákvað síðar að þiggja það ekki og eru íbúðirnar seldar á almennum markaði og virðist markaðsverð vera það hátt að það stendur undir byggingarkostnaði.

DEILA