Laugardaginn 16. nóvember kl. 16:00 verður bókmenntavakan Opin bók haldin í Edinborgarsal Edinborgarhússins. Opin bók er árviss viðburður í menningarlífnu á Ísafirði þar sem rithöfundar koma fram og lesa upp úr nýútkomnum bókum sínum. Boðið verður upp á kaffi og smákökur undir lestrinum. Bóksali frá Eymundsson mætir á svæðið.
Fram koma:
Bragi Ólafsson, Staða pundsins
Huldar Breiðfjörð, Sólarhringl
Sigrún Pálsdóttir, Delluferðin
Sölvi Björn Sigurðsson, Selta, apókrýfa úr ævi landlæknis
Vigdís Grímsdóttir, Systa
Um höfundana og bækurnar:
Bragi Ólafsson, Staða pundsins
Árið 1976 er verð á hljómplötu á Íslandi tæpar þrjú þúsund krónur – mun hærra en til dæmis á Englandi.
Þetta sama ár ákveða mæðginin Madda og Sigurvin – hálffertug ekkja og unglingur með nýtilkominn tónlistaráhuga – að ferðast til Englands og heimsækja gamlan vin hins látna eiginmanns Möddu og föður Sigurvins, mann sem býr á sveitabýli suður af London, með fólki á sama reki og hann; uppreinsnargjörnu listafólki og stjórnleysingjum.
Úr verður saga um móður og son, sem ekki gat hafist fyrr en faðirinn á heimilinu vék úr vegi þeirra.
Hálf saga – eins og allar sögur.
Bragi Ólafsson er leikritaskáld, ljóðskáld og prósahöfundur, búsettur í Reykjavík. Hann hefur gefið út ljóða- og smásagnasöfn, og skrifað leikrit fyrir útvarp og svið. Fjórar af skáldsögum Braga hafa verið tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og starfsfólk bókaverslana útnefndi tvær þeirra skáldsögu ársins, Samkvæmisleiki og Sendiherrann. Sú fyrrnefnda hlaut einnig Menningarverðlaun DV og Sendiherrann tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Þekktasta bók Braga erlendis er án efa skáldsagan Gæludýrin sem hefur komið út á fjölda tungumála.
_____________________________________________________
Huldar Breiðfjörð, Sólarhringl
Hér er samband Íslendingsins við heimkynni sín skoðuð. Hvernig er best að skafa af bílnum? Hvenær er óhætt að setja sumarblómin út? Er lífið kannski betra á Kanaríeyjum? Hversdagurinn, fornsögurnar, forsælubæir, reikular árstíðir og suðið á eyjunni bláu. Allt er þetta samfléttað daglegu lífi og minningum höfundar svo nálgunin er í senn bæði almenn og einstaklega persónuleg.
Huldar Breiðfjörð segir frá á látlausan og jarðbundinn en íhugulan hátt og hrífur lesandann með sér í ferðalag í leit að upplifunum og einhvers konar svari við spurningunni um hvað það er að vera Íslendingur.
Huldar er þekktur jafnt sem rithöfundur og kvikmyndagerðarmaður. Hann sló í gegn árið 1998 með bókinni Góðir Íslendingar sem var tilnefnd bæði til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Menningarverðlauna DV. Þeirri bók fylgdi hann eftir með ferðabókunum Múrinn í Kína (2004) og Færeyskur dansur (2012). Huldar hefur einnig skrifað leikrit og handrit að nokkrum kvikmyndum. Þar má nefna París norðursins og hina geysivinsælu kvikmynd Undir trénu sem hann skrifaði ásamt Hafsteini Gunnari Sigurðssyni.
____________________________________________________
Sigrún Pálsdóttir, Delluferðin
Seint um vetur árið 1897 boðaði æðsti embættismaður konungs á Íslandi til samdrykkju með nokkrum félögum sínum. Efni fundarins var landflótta stúlka, Sigurlína Brandsdóttir, og íslenskur forngripur sem þá hafði nýlega komist í eigu Metropolitan-safnsins í New York.
Sigrún Pálsdóttir lauk doktorsprófi frá University of Oxford árið 2001 og hefur frá námslokum unnið við ýmsar rannsóknir og ritstjórn. Fyrri bækur hennar eru Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar (2010), Sigrún og Friðgeir: Ferðasaga (2013) og skáldsagan Kompa (2016). Bækurnar hafa verið tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Fjöruverðlaunanna, DV-verðlaunanna og Viðurkenningar Hagþenkis.
____________________________________________________
Sölvi Björn Sigurðsson, Selta, apókrýfa úr ævi landlæknis
Haustið 1839 rekur óþekktan dreng á land við Hjörleifshöfða og fær landlæknir það verk að vekja hann til lífs og leita uppruna hans. Selta er hvort tveggja í senn óður til íslenskrar náttúru og áningarstaðarins sem við leitum að. Grípandi saga af kostulegum persónum og ævintýralegum uppákomum, skrifuð af fágætri fimi eins okkar eftirtektarverðustu höfunda.
Sölvi Björn Sigurðsson hefur hlotið margskonar viðurkenningar fyrir ritstörf sín eins og rithöfundaviðurkenningu RÚV, Menningarverðlaun DV og tilnefningu til Hinna íslensku bókmenntaverðlauna. Þá hafa verk hans verið gefin út víða erlendis og hlotið þar frábærar viðtökur.
______________________________________________________
Vigdís Grímsdóttir, Systa
Bernska okkar allra á sér samhljóm hvar sem við erum, við hvaða atlæti sem við búum, hverjar sem minningar okkar eru; við eigum ómetanlegan fjársjóð í minningum okkar.
Að hugleiða eigin bernsku, foreldra og systkina, er ferðalag sem hverjum manni verður eftirminnilegt um leið og það skýrir lífssýn hans.
Lítum til bernskunnar í hvert skipti sem við stígum mikilvæg spor; allt er bernskunnar vegna hvar og á hvaða tíma sem hún líður.
Hér er á ferðinni bernskubók Sigrúnar Sveinbjörnsdóttur, Systu.
Vigdís Grímsdóttir hefur skrifað skáldsögur, ljóðabækur, smásögur og ævisögur. Hún var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 1989 fyrir Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón, 1996 fyrir Z – ástarsaga og 2007 fyrir Söguna um Bíbí Ólafsdóttur. Verðlaunin hlaut hún árið 1994 fyrir Grandaveg 7. Síðustu bækur hennar eru Elsku Drauma mín (2016) og Dísusaga (2013).