Hagyrðingarnir eru sífrjóir þessa dagana og Samherjamálið hefur opnað vísnaæðina upp á gátt.
Jón Atli á Reykhólum gefur ríkisstjórninni ekki bestu einkunn fyrir sín viðbrögð:
Ríkisstjórnin ráðlaus heild,
raun hvað illa vorar.
Á að vera í úrvalsdeild,
en ekkert lengur skorar.
Indriði á Skjaldfönn hefur ekki trú á að Þorsteinn Már bjargi sér úr klípunni:
Þorsteinn Már, hann fór í frí
af fjandsamlegri pressu,
en barnið dottið brunninn í
og bjargast ekki úr þessu.
Formaður Sjálfstæðisflokksins sagði í viðtali við breskt blað eitthvað á þá lund að spillingin í Afríku hefði stýrt athöfnum Samherja inn á mútuslóðirnar.
Indriði orti þá í orðastað Bjarna Benediktssonar:
Spillingin nærist í Namibíu.
Nálgast það að ég fái klígju.
Hér á landi ei svoleiðis sést.
Af sóma og manngæsku erum við best.