Fram kom í gær í erindi Sigurður Á. Snævarr, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs sambandsins á Fjármálaráðstefnu sveitarfélaga að afkoma sveitarfélaga var á síðasta ári mismunandi eftir landshlutum. Best var hún á Suðurnesjum en verst á Vestfjörðum.
Afkoman var mæld sem veltufé frá rekstri í % af tekjum. Veltufé frá rekstri er það fjármagn sem sveitarfélagið hefur aflögu til að greiða afborganir af lánum og til að leggja í
nýfjárfestingar. Því hærra hlutfall sem veltuféð er af heildartekjum sveitarfélags því betur er það í stakk búið til að standa við skuldbindingar sínar.
Veltuféð frá rekstri var aðeins 7% af tekjum hjá vestfirsku sveitarfélögunum. Er það aðeins þriðjungur þess sem hlutfallið var á Suðurnesjunum. Þetta er ekki greint frekar eftir sveitarfélögum þannig að ekki er hægt að sjá hvernig hlutfallið er hjá hverju þeirra.
Í árbók sveitarfélaganna fyrir 2017 kemur fram að hlutfallið var hæst hjá Súðavíkurhreppi 14%, síðan 12% í Reykhólahreppi, 9% í Bolungavík, 8% hjá Tálknafjarðarhreppi og 7% hjá Ísafjarðarbæ. Í Vesturbyggð var hlutfallið aðeins 3%, 5% í Strandabyggð og 2% hjá Kaldrananeshreppi. Verst var afkoman í Árneshreppi, hvorki meira né minna en -22% af tekjum.