Tálknafjörður: mestur stuðningur við stóra sameiningu

Ingibjörg Ósk Þórhallsdóttir skemmtir sér yfir niðurstöðum í sínum hóp. Mynd: talknafjordur.is.

Á íbúafundi í Tálknafirði í gær sem sveitarstjórn stóð fyrir var meðal annarra mál rætt um sameiningu sveitarfélaga. Komu fram margar hugmyndir að sameiningu og voru greidd atkvæði meðal fundarmanna um nokkrar hugmyndir.

Bryndís Sigurðardóttir, sveitarstjóri segir að í umræðum í hópi um sameiningar sveitarfélaga hafi verið líflegar og hressandi umræður og öllum möguleikum velt við.  „Í óformlegri könnun innan hópsins voru tveir sem vildu norður-suður (Tálknafjörður, Vesturbyggð, Ísafjarðarbær, Bolungarvíkurkaupstaður og Súðavíkurhreppur) sameiningu og tveir sem vildu sameiningu Tálknafjarðar og Vesturbyggðar, þar voru hins vega fimm alfarið á móti. Sjö voru aftur á móti heitir fyrir sameiningu Vestfjarðarkjálkans í eitt sveitarfélag.“

Allur kjálkinn fékk mestan stuðning

Með handauppréttingu meðal allra fundarmanna fóru leikar svona segir Bryndís:

Allur kjálkinn = 20 stig. 

Tálknafjörður, Vesturbyggð, Ísafjarðarbær, Bolungarvíkurkaupstaður og Súðavíkurhreppur = 18 stig

Tálknafjörður og Vesturbyggð = 12 stig

Sveitarfélagið Breiðafjörður = 1

 

Hugmyndir um aðrar samsetningar eins og Tálknafjörð, Vesturbyggð og Reykhólahrepp, með eða án, Strandabyggðar, Kaldrananeshrepps og Árneshrepps fengu engin atkvæði.

 

DEILA