Samúel Örn og Vestfjarðavíkingarnir klikka sko ekki!

Frá keppninni 2018.

Hinn árlegi Vestfjarðavíkingur er eitthvert skemmtilegasta sjónvarpsefni sem Rúv býður uppá. Samúel Örn Erlingsson hefur einstakt lag á að leiða þessa þætti og spjalla við kallana á réttan hátt á réttum tíma. Hamrammir eru þeir, æpa og ganga berserksgang ef svo ber við. Þeir þyngstu 140-160 kg menn. Æðsti draumur hinna yngri víkinga er að bæta á sig 30-50 kg til að verða almennilegir berserkir. Vestfjarðavíkingarnir, sem eru alveg sér á báti hvernig sem á er litið,  þurfa að sögn að éta gott lambslæri í mál ef vel á að vera, fyrir utan allt meðlæti!

„Ég elska steina, Steinn Steinarr,“ sagði einn ungliðinn í síðasta þætti. Það má þó furðu gegna, þegar þeir eru að jafnhenda þessi svakalegu steinatök, að þeir skuli ekki hryggbrjóta sig. En þeir kunna lagið á þessu, drengirnir, eins og Samúel Örn mundi segja. Og beltið breiða og þykka um lendar þeirra hjálpar þar mikið upp á. Kynningin á vestfirskum byggðum í þáttunum er svo alveg sér á báti. Mikið gott, mikið gaman. Koma svo! Taketta strákar!

Auðunn vestfirski

DEILA