Ríkisstjórnin með stuðningi sambands íslenskra sveitarfélaga er lögð af stað í leiðangur gegn fámennum sveitarfélögum. Það kostar peninga, mikla peninga. Búið er að gefa út skjal sem sýnir hvernig 19 milljörðum króna úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga er dreift til sveitarfélaga landsins ef þau ákveða að stíga þennan vals.
Hræra í silfrinu
Að vísu fylgir sá böggull skammrifi að ekki stendur til að setja meiri peninga inn í Jöfnunarsjóðinn. Öðru nær á næstu 15 árum á að taka frá einn milljarð króna á ári af tekjum sjóðsins til þess að standa undir sameiningarátakinu. Sveitarfélögin eiga sjálf að borga brúsann. Það liggur í augum uppi til hvers refarnir eru skornir. Fjármagnið færist til stærri byggðarlaganna frá þeim minni. Spyrjið bara íbúana í svokölluðum fjölkjarna sveitarfélögum.
Opinberi tilgangurinn er að bæta stöðu íbúanna, sérstaklega í fámennu sveitarfélögunum. Samt telja stjórnvöld og forystumenn sambands íslenskra sveitarfélaga vissara að vera ekkert að spyrja íbúana um það hvernig þeim list á. Ætlunin er að setja lög sem þvinga fram sameiningu sveitarfélaga sem eru fámennari en 250 íbúar 2022 og fámennari en 1000 íbúar 2026. Þetta verður lögbundin aðgerð án samráðs eða atkvæðis íbúanna í sveitarfélögunum 39 sem í dag eru fámennari en 1000 manns.
Fámenn skulda lítið
Rökin eru þau að fjölmennari sveitarfélögin geti veitt betri þjónustu og nýti takmarkað opinbert fé betur. En þegar rýnt er í útdeilingu silfurs Sigurðar Inga kemur í ljós að það ratar mest til fjölmennu sveitarfélaganna. Staðreyndin er sú að fámennu sveitarfélögin halda betur um fjárhaginn og halda skuldum innan skikkanlegra marka. Fjögur sveitarfélög á Vestfjörðum sem eiga sér ekki tilverurétt í nýja Íslandi standa svo vel að ekki fer ein króna til þess að lækka skuldir þeirra við sameiningu við annað sveitarfélag. Það þarf ekki að gera þau fjárhagslega fýsileg til sameiningar. Þetta á við um flest þessara 39 fámennu sveitarfélaga sem eru á útrýmingarlistanum.
Vond reynsla
Annað sem vekur athygli er að svo virðist að andstaða íbúanna í þessum fámennu sveitarfélaga sé það mikil að óliklegt yrði að sameining yrði samþykkt ef þeir fengju að ráða. Það bendir ekki til þess að í fámennu sveitarfélögunum telji íbúarnir að þjónustustigið standi að baka fjölmennari nágrönnum. Þar sem reynsla er af sameiningu eins og í Ísafjarðarbæ verður að segjast að íbúarnir í þorpunum eru ekki yfir sig hrifnir eftir 20 ára reynslu. Svo rammt kveður að óánægjunni að það er vandfundinn Dýrfirðingur sem myndi ógrátandi samþykkja sameiningu ef kostur gæfist á því að endurtaka leikinn. Þorpin hafa ekki beinlínis blómstrað. Íbúum á Þingeyri hefur fækkað úr 359 í 249 frá sameiningu svo dæmi er tekið.
Reykjavík er fjárþurfi
Sameiningarátakið er ekki fyrir íbúa fámennu sveitarfélaganna. Það er til þess að bæta fjárhagsstöðu fjölmennari sveitarfélaganna. Það er kjarni málsins. Reykjavík stendur til boða að fá 400 milljónir króna til þess að lækka skuldir sína ef borgin tekur t.d. Kjósarsveitina í fóstur. Það þarf ekkert framlag til þess að greiða úr skuldum Kjósarhrepps. Hreppurinn stendur svo vel að til fyrirmyndar er. Til þess að Reykjavík muni ekki sligast undan álögunum sem fylgja 238 íbúum Kjósarhrepps er höfuðborginni boðnar 100 milljónir króna í fast framlag til að mæta kostnaði við sameininguna. En þar með er ekki öll sagan sögð. Reykjavík fær til viðbótar við þessar 500 milljónir króna hvorki meira né minna en 200 milljónir króna í byggðaframlag. Byggðaframlag! Alls 700 milljónir króna til Reykjavíkur fyrir það lítilræði að taka við skuldlitlum hreppi. Heyr á endemi. Þetta sameiningarátak er án tilgangs fyrir íbúa fámennisins og mun verða árangurslaust.
Gagnsókn Vestfirðinga
Vestfirðingar eiga að nota þennan áhuga stjórnvalda á sameiningu sveitarfélaga til þess að setja fram sínar hugmyndir um framtíðarskipan og hlutverk sveitarstjórnarstigsins á Vestfjörðum. Setja á fram tillögur sem munu skipta máli til sóknar fyrir fjórðunginn. Það sem skiptir máli er vald og fjármagn. Í fyrsta lagi á að bjóða ríkinu að Vestfirðir verði ein eining, eitt sveitarfélag og ein sveitarstjórn með dreifðu valdi og undirstjórnir eftir svæðum í staðbundnum málum. Á móti á að gera kröfu til þess að Vestfirðir ráði auðlindum fjórðungsins til lands og sjávar og hafi af þeim tekjur. Ríkið hefur boðið Reykjavík að nota verðmætið í Keldnalandinu sem er í eigu ríkisins til framkvæmda þar en ekki annars staðar. Vestfirðingar eiga að gera það kröfu að okkar “land” verðmætið í veiðiheimildum og nytjum sjávarins út af Vestfjörðum renni til Vestfjarða. Vestfirðingar eiga að fara fram á að þeir fari með vald opinberra stofnana eins og Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar og annarra slíkra á sínu svæði og verði leystir undan áþján þeirra. Vestfirðingar eiga að ráða því hvar verður virkjað í fjórðungnum að uppfylltum almennum lögum. Að lokum eiga Vestfirðingar að gera kröfu til ríkisins um greiðslu skaðabóta fyrir áratuga flutning fjármagns frá svæðinu og vanrækslu á uppbyggingu og þjónustu við íbúanna. Vestfirðingar eiga sinn skerf í vaxandi þjóðarauð sem birtist meðal annars í eignaverði á eftirsóttum stöðum. Þann hlut eigum við að heimta til okkar.
Sameining sveitarfélaga á ekki að snúast um fjárhag valinna skuldsettra sveitarfélaga. Sameiningin á að snúast um það sem máli skiptir fyrir íbúana.
Við erum jafnmiklir Íslendingar og aðrir landsmenn.
Kristinn H. Gunnarsson