Næsta Bókaspjall verður laugardaginn 2. nóvember kl. 14:00 og að vanda verða tvö erindi í boði. Það er gaman frá því að segja, og skemmtileg tilviljun, að báðir gestir okkar tengjast Flateyri, auk viðfangsefnis annars erindisins – e.t.v. beggja, hver veit?
Júlía Björnsdóttir, bókavörður, kennari með meiru við Menntaskólann á Ísafirði spjallar um bækur.
Sæbjörg Freyja Gísladóttir verður með erindi sem hún kallar „Er það hafið eða fjöllin? Um Flateyri og fólkið þar“.
Árin 2013-2016 vann þjóðfræðingurinn Sæbjörg Freyja Gísladóttir að meistararitgerð sinni í þjóðfræði sem nefnist Er það hafið eða fjöllin? Um Flateyri og fólkið þar. Í ritgerðinni sem var etnógrafía eða vettvangsrannsókn var leitast við að svara spurningunni: Af hverju býr fólk eiginlega á Flateyri? Auk þess að leita svara við þessari spurningu þá fjallar ritgerðin um Flateyri frá ýmsum hliðum, svo sem daglegt líf á eyrinni og samskipti hinna ýmsu hópa sem þar búa eða dvelja. Nú hefur ritgerðin komið út í bókaformi og á þessari kynningu ætlar Sæbjörg að segja frá tilurð hennar og rannsókninni sem að baki henni býr.
Sýnishorn úr bókinni:
„Eftir svefnlausa nótt vegna taumlausrar kaffidrykkju var ætlunin að hitta Kidda Valda á laugardeginum. Við ákváðum daginn fyrirfram en ekki tímann enda reyndist Kiddi vera á kóræfingu þegar ég hringdi. Soffía kona hans tók samt skilaboð og þegar Kiddi kom heim hittumst við til að taka viðtalið. Kiddi talar hægt og vandar mál sitt, sem getur verið erfitt fyrir kaffivíraðan háskólanema og það tók mig nokkra stund að spóla niður í Flateyrartaktinn. Kiddi er fæddur árið 1950, giftur henni Soffíu og þau eiga þrjú uppkomin börn. Hjónin búa ofarlega á eyrinni og þegar ég spurði Kidda um ætt og uppruna var svarið hreinlega: „Flateyri.“ Kiddi veiðir mikið og er refaskytta en aðalstarf hans er að vera rafveituvirki hjá Orkubúi Vestfjarða. Það þýðir að ef rafmagnið fer á Flateyri er eins gott að hætta að ganga á miðju Hafnarstræti og færa sig upp á gangstétt svo Kiddi komist greiðlega fram hjá í myrkrinu til að tendra ljósin aftur í bænum.“
Verið kærlega velkomin, heitt á könnunni.