Tillaga Lilju Magnúsdóttur, Tálknafirði um vinnuhóp til að kanna hug íbúa til þeirrar þjónustu sem þeir gera kröfu um að verði til staðar í hverju samfélagi á Vestfjörðum var samþykkt nokkuð breytt eftir að hafa verið hafnað í allsherjarnefnd Fjórðungsþingsins.
Í allsherjarnefnd var tillagan rædd og þar samþykkt að hafna henni. Formaður nefndarinnar María Ósk Óskarsdóttir, Vesturbyggð gerði grein fyrir þessari niðurstöðu nefndarinnar og lagði til við þingið að það staðfesti vilja nefndarinnar. Sú tillaga var felld með atkvæðum þingfulltrúa sem höfði 5047,8 atkvæði á bak við sig sem er meirihluti 9224,8 heildaratkvæðanna. Var tillagan þar með komin til umræðu og afgreiðslu. Lilja lagði til breytingar á tillögunni sem var samþykkt. Felld var brott tilvísun til sameiningar sveitarfélaga.
Þannig breytt var samt andstaða við innihald tillögunnar og Friðbjörg Matthíasdóttir, Vesturbyggð lagði til að tillögunni yrði hafnað. Atkvæðagreiðslan fór á annan veg og var hún samþykkt með 16 atkvæðum gegn 5.
Niðurstaðan er því að Fjórðungsþingið ákvað að setja upp vinnuhóp til að kanna hug íbúa til þjónustu sem þeir vilja að verði í hverju samfélagi á Vesfjörðum.
Endanleg ályktun Fjórðungsþingsins varð þessi:
„4. haustþing Fjórðungssambands Vestfirðinga haldið á Hólmavík 2019 leggur til að stofnaður verði vinnuhópur til að kanna hug íbúa til þeirrar þjónustu sem þeir gera kröfu um að verði til staðar í hverju samfélagi á Vestfjörðum. Forgangsatriði í því sambandi er aukin og bætt þjónusta við íbúa og fyrirtæki. Má þar nefna bættar samgöngur, öflugt heilbrigðiskerfi, skilvirk stjórnsýsla og aukin fjölbreytni í atvinnulífi fyrir alla íbúa.“