Bæjarráð Ísafjarðarbæjar synjaði erindi hestamannafélagsins Hendingar frá september 2019 um efni á byggingarsvæði reiðhallar skv. samkomulagi um byggingu reiðskemmu frá 2017. Segir í bókun bæjarráðs að mölin samkvæmt samkomulaginu hafi eingöngu verið ætluð í púða undir burðarveggi og fyllingu í grunn og við húsnæði. Erindi Hendingar hafi verið til annarra framkvæmda og falli því ekki innan samkomulagsins. Í samkomulaginu er kveðið á um að Ísafjarðarbær afhendi að hámarki 2800 rúmmetra. Bæjarráð heldur því fram að á árunum 2017 og 2018 hafi verið lagðir til 2200 rúmmetrar og að ekki hafi verið þörf á meira efni.
Marinó undrandi
Marinó Hákonarson, formaður Hendingar segir að ætlunin hafi verið að setja efnið í lóðina utan um reiðhöllina meðal annars til þess að rétta planið og lagfæra bílastæði. Hann segir engan vafa leika á því að sú notkun sé innan þess sem samið var um. Aðspurður um viðbrögð við afgreiðslu bæjarráðs segist Marinó vera undrandi. „En það er greinilegt að menn lesa samninginn með mismunandi gleraugum“, segir Marinó.
Tjón hestamannafélagsins af því að svæði þess fór undir framkvæmdir vegna Bolungavíkurganga var metið í desember 2011 vera 72 milljónir króna án virðisaukaskatts. Marinó segir það losa 100 milljónir króna á verðlagi í dag.
Ný Reiðhöll 900 fermetrar að stærð er risin samkvæmt samkomulaginu frá 2017 og lagði bæjarsjóður 30 milljónir króna til verksins og Hending 20 milljónir króna. Þá var tilbúinn viðaukasamningur við Hendingu fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar en undirritun var frestað og hefur ekki enn farið fram. Marinó Hákonarson segir að sá samningur sé um 60 milljóna króna virði og fjalli einkum um gerð reiðvallar og útiaðstöðu.