Gervigras á Torfnesvöll kostar 173 milljónir króna

Ein tillaga að knattspyrnuhúsinu.

Það mun kosta 173 milljónir króna að setja gervigras á Torfnesvöll samkvæmt kostnaðarmati umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar frá 4. júní síðastliðinn.

Kostnaðarmatið nær til jarðvinnu, lagnavinnu og vallaryfirborðs.  Gert er ráð fyrir að fjarlægja núverandi gras ásamt undirlagi, fylla undir völlinn, lögn frá fráveitu- og vatnsúðunarlögnum, lagningu rafstrengja og uppsetningu ljósabúnaðar, en ekki er reiknað með hitalögnum  undir gervigrasið. Kostnað við þær og stjórnbúnað er áætlaður um 45 milljónir króna.

Fram kemur í minnisblaðinu að sambærilegur völlur í Ólafsvík hafi kostað 177 milljónir króna og á Dalvík hafi einnig sambærilegur völlur að frádregnum hitalögnum kostað 175 milljónir króna.

Gervigrasið sjálft er stærsti einstaki kostnaðarliðurinn og er 71 milljón króna. Frágangur yfirborðs og rafkerfi kostar 25 milljónir króna hvor liður.

DEILA