Bolungarvík – Rannsóknasetur HÍ í nýtt húsnæði

Fjölmenni var við opnun nýrrar rannsóknaaðstöðu Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum í gær. Við sama tækifæri var undirritaður samstarfsamningur Bolungarvíkurkaupsstaðar og Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum.

Samstarfssamninginn undirrituðu Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar, Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum, og Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands. Samningurinn hefur það að markmiði að efla þekkingar- og rannsóknastarf í Bolungarvík og á Vestfjörðum og um leið að festa í sessi og efla starfsemi rannsóknasetursins.

Með samningnum er fest í sessi sumarnámskeið fyrir grunnskólabörn og samstarf við efstu bekki grunnskólans þar sem nemendur kynnast vísindalegum aðferðum við sjávarrannsóknir t.d. með því að veiða og rannsaka fiskseiði.
Guðbjörg Ásta Ólafsdótir, forstöðumaður rannsóknasetursins, sagði við þetta tækifæri að ,,með glæsilegri rannsóknaaðstöðu aukast möguleikar okkar á að þróa okkar rannsóknir um leið og samstarfsmöguleikar okkar innan svæðisins og utan aukast mjög.“ Ánægjulegt er að starfsemi rannsóknasetursins hafi eflst mjög undafarna mánuði og starfa nú átta manns við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum, auk Guðbjargar, Ragnar Edvardsson fornleifafræðingur, þrír doktorsnema, tveir meistaranemar auk starfsnema.

Framlög frá Bolungarvíkurkaupstað, Uppbyggingasjóði Vestfjarða, Innviðasjóð Rannís og Tækjakaupasjóði Háskóla Íslands hafa gert þá innviðauppbyggingu mögulega sem í dag var fagnað að viðstöddu fjölmenni. Rannsóknasetrið hefur nú alla fyrstu hæð húsnæðisins við Hafnargötu 9b.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum var sett á fót árið 2007 og eru þar lögð áhersla á rannsóknir náttúru, mannlífi og atvinnuvegum á svæðinu. Rannsóknasetrið er hluti af Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands en markmið hennar er að skapa aðstöðu til rannsókna á landsbyggðinni, auka möguleika almennings til menntunar og styrkja tengsl Háskóla Íslands við atvinnu- og þjóðlíf. Stofnunin er jafnframt vettvangur samstarfsverkefna Háskólans við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga á landsbyggðinni.

DEILA