Baldur Ingi Jónasson, félags- og vinnusálfræðingur, er genginn til liðs við þjálfarateymi Körfuknattleiksdeildar Vestra og mun hann m.a. sinna þáttum sem lúta að hugarþjálfun, sjálfsstyrkingu og þróun leikmanna meistaraflokks karla. Baldur Ingi mun jafnframt liðsinna yngri flokkum deildarinnar með ráðgjöf og fyrirlestrum um hugarþjálfun fyrir þjálfara deildarinnar og iðkendur eldri æfingahópa.
Baldur Ingi er með meistaragráðu í félags og vinnusálfræði ásamt því að vera menntaður íþróttakennari. Hann starfar sem mannauðsstjóri Ísafjarðarbæjar.
Baldur Ingi er svo sannarlega ekki nýr af nálinni í starfi körfunnar á Ísafirði en hann lék um langt árabil með KFÍ og átti þar glæstan feril en hann er leikja- og stigahæsti leikmaður KFÍ í úrvalsdeild frá upphafi. Hann sigraði 1. deildina með KFÍ árin 1996 og 2003 og á að baki þrjátíu leiktímabil á Íslandsmóti frá 1989 til 2019. Baldur spilaði einnig með Þór Akureyri og þjálfaði kvennalið Þórs. Hann tók síðar við kvennaliði Stjörnunnar og stýrði því í eitt tímabil.
Þess má geta að elsti sonur Baldurs Inga, Ingimar, fetaði í fótspor föðurins og hefur leikið með meistaraflokki Vestra síðustu ár. Baldur Ingi flutti aftur til Ísafjarðar með fjölskyldu sinni fyrir tveimur árum.