Árshátíð Dýrfirðingafélagsins verður laugardaginn 5. október í Stangarhyl 4 en með því hefst formlegt vetrarstarf félagsins.
Í fréttablaði Dýrfirðingafélagsins segir að vonast sé til þess að félagsmenn og aðrir vinir og velunnarar safni liði og fjölmenni á árshátíðina enda hafa Dýrfirðingar á suðvesturhorninu sýnt svo ekki verður um villst að vilji er til að halda í þessa áratuga löngu hefð. Eftir afburða hlýtt og notalegt sumar er tilvalið að þakka fyrir og bjóða haustið velkomið í góðra vina hópi, stofna til nýrra kynna og njóta lífsins. „Það er gott að gefa sér tíma til að staldra við og hlaða batteríin með skemmtilegu fólki því maður er manns gaman!“
Miðaverðið er það sama og undanfarin ár, kr. 6.900 pr. mann, þannig að enginn ætti að þurfa frá að hverfa þess vegna. Innifalið í því er hlaðborð frá meistarakokkinum Guðmundi Helga Helgasyni, kaffi, konfekt, tónlist, skemmtiatriði og ball með okkar einu sönnu stuðmönnum í Hafrót.