Töluverð óánægja meðal fámennra sveitarfélaga er að koma upp á yfirboðið með afstöðu forystu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Tjörneshreppur hefur tilkynnt um úrsögn sína úr Sambandinu. Í gær gerði Grýtubakkahreppur í Eyjafirði harðorða samþykkt á fundi sínum.
Þar segir:
„Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps fordæmir vinnubrögð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga í þessu máli. Sambandið á að vera málsvari sveitarfélaga skv. 2. grein samþykkta þess. Stjórn sambandsins hefur farið þvert gegn vilja og hagsmunum fjölmargra minni sveitarfélaga, hunsað þeirra sjónarmið og röksemdafærslu í aðdraganda tillögunnar og er að óbreyttu ekki lengur hægt að líta á hana sem málsvara allra sveitarfélaga. Við þær aðstæður hlýtur sveitarstjórn að íhuga í fullri alvöru hvort rétt sé að ganga úr sambandinu og mun fara vel yfir það á næstu vikum.“
Reykhólahreppur á móti
Fulltrúi Reykhólahrepps á aukalandsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga mun hafa greitt atkvæði gegn samþykktinni samkvæmt heimildum Bæjarins besta, sem þar var gerð til stuðnings sameiningarátaki ríkisstjórnarinnar, sem unnið var í samráði við forystu Sambandsins.
Í svari skrifstofu Sambandsins við fyrirspurn Bæjarins besta um atkvæðagreiðsluna á aukalandsþinginu segir að tillagan hafi verið samþykkt með þorra atkvæða.
„Kosið var um tillöguna með handauppréttingu með já og nei spjöldum. Munurinn var svo mikill að ekki var þörf á að telja nákvæmlega hversu margir voru með og á móti.“
Eftir því sem næst verður komist voru 132 fulltrúar á aukafundi Sambands íslenskra sveitarfélaga með atkvæðisrétt og um 33 þeirra voru frá sveitarfélögum með færri en 1000 íbúa. Ekki er vitað hve margir þessara 33 greiddu atkvæði gegn tillögunni en áætlað að það hafi verið 25.