Skynlausar skepnur?

Og hver er hér kominn á miðjum sauðburði á Brekku hjá frú Guðrúnu nema Hemmi okkar Gunn heitinn! Ljósm. H. S.

Það er merkileg skepna sauðkindin og því merkilegri sem menn kynnast henni betur. Sama má segja um flest dýr merkurinnar á þessari jörð. Þau eru mun athyglisverðari en mannskepnan gerir sér oft grein fyrir í hroka sínum.
Þau Sigríður á Hrafnabjörgum og Sigurjón í Lokinhömrum töluðu við sínar kindur eins og við mann og annan og það hefur margur sauðamaðurinn og smalinn gert í gegnum tíðina. Og ásauðurinn sperrir eyrun og skilur fleira en margur hyggur.

Nú. Þannig var fyrir nokkrum árum að smalinn á Brekku í Dýrafirði fór yfir á Hrafnseyrardal í Arnarfirði í haustleitir og hitti þar fyrir 12 geldar veturgamlar gimbrar í einum hóp. Þetta var um 12-14 km leið og yfir Hrafnseyrarheiði að fara. Hann ávarpaði þær á máli sem þær skildu og sagði þeim að koma nú heim til sín því það væri orðið áliðið og allra veðra von á fjöllum. Og hvað skeði? Morguninn eftir stóð hópurinn við girðinguna á Brekku. Skynlausar skepnur?

H. S.

DEILA