Ólympíuhlaup ÍSÍ fór fram í gær

Blossi lukkudýr hitar upp með krökkunum fyrir hlaupið.

Norræna skólahlaupið hefur farið fram í grunnskólum landsins óslitið frá árinu 1984 og lengstan hluta þess tíma verið í umsjón ÍSÍ. Á síðustu árum hefur Ísland verið eina þátttökuþjóðin á Norðurlöndunum og nafn hlaupsins því ekki endurspeglað verkefnið. ÍSÍ hefur því ákveðið að breyta nafni hlaupsins og varð Ólympíuhlaup ÍSÍ ofan á. Þátttaka íslenskra grunnskólanemenda hefur verið mjög góð og almenn í gegnum árin en hefur náð nýjum hæðum á undanförnum árum. Með Ólympíuhlaupi ÍSÍ er eins og áður leitast við að hvetja nemendur skólanna til þess að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan.

Að hlaupinu loknu fær hver þátttakandi og hver skóli viðurkenningarskjal þar sem greint er frá árangri. Það skal tekið fram að hér er fyrst og fremst lögð áhersla á holla hreyfingu og að allir taki þátt.

Þar sem skólar hér á svæðinu hafa alltaf verið duglegir að taka þátt í hlaupinu ákvað ÍSÍ að opna hlaupið þetta árið hér á Ísafirði. Af því tilefni komu nemendur úr Grunnskólunum  Suðureyri  og Bolungarvík til Ísafjarðar og allir hlupu saman. Hlaupið byrjaði og endaði við íþróttahúsið á Torfnesi og hljóð hver aldurshópur vegalengd sem hentaði. Að loknu hlaupi fóru eldir nemendur inn í íþróttahús þar sem Snorri Einarsson skíðamaður og olympíufari og Jón Sigurður Gunnarsson fimleikamaður sögðu frá reynslu sinni sem afreksíþróttamenn. Einnig var á staðnum Birgir Sverrrisson frá Lyfjaeftirliti ríkisins og fór yfir mikilvægi hreinna íþrótta og lyfjaeftirlits með krökkunum.

Nemendur af Afreksbraut MÍ aðstoðuðu yngstu nemendur í hlaupinu. Allir þátttakendur fengu mjólk frá MS að loknu hlaupi og þeir skólar sem tóku þátt fengu bolta fyrir nemendur til að nota í frímínútum að gjöf frá Altís.

Viðburðurinn tókst mjög vel, krakkarnir voru dugleg í hlaupinu og áhugasöm í fræðslunni. Það voru þau Þórarinn Alvar Þórarinsson og Ragnhildur Skúladóttir starfsmenn þróunar og fræðslusviðs ÍSÍ sem stýrðu heimsókninni fyrir hönd ÍSÍ. Íþróttakennarar í Grunnskólanum á Ísafirði sáu um skipulag hlaupsins. Yngstu nemendurnir hlupu 2 km en þau elstu um 10 km.

Myndir: Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir.

 

Snorri Einarsson olympíufari skokkaði með yngstu þátttakendunum.
DEILA