Lýðskólinn á Flateyri: setningarræða skólastjóra

Ingibjörg Guðmundsdóttir, skólastjóri. Mynd: Páll Önundarson.

Ráðherra, nemendur nýir sem gamlir og aðrir góðir gestir

Lýðskólinn á Flateyri verður nú settur annað árið í röð, með fullt hús nemenda og töluvert fleiri umsóknir en hægt var að verða við. Þetta segir okkur að full þörf og mikill áhugi sé á skóla sem þessum.

Að starfa við þetta skemmtilega verkefni sem Lýðskólinn á Flateyri er, er bæði ljúft og skemmtilegt. Hvert sem maður kemur hér á Flateyri og í nágrannabæjum hér í kring finnur maður mikinn áhuga á skólanum og mikla jákvæðni í garð hans. Ég er í vinnu þar sem allt nærsamfélagið er með mér í liði – það er góð tilfinning.

Þessi skóli er í raun samstarfsverkefni Flateyringa, stjórnar skólans, starfsfólks hans og ísafjarðarbæjar. Kannski er Flateyri að breytast í mikinn menningar- og menntabæ? Hér á Flateyri eru allir eru tilbúnir að leggja sitt af mörkum, til í að lána dót eða gefa, létta undir með okkur og taka þátt í viðburðum tengdum skólanum. Á mjög stuttum tíma tókst okkur að breyta heilsugæslustöð í heimavist með hjálp bæjarbúa hér á Flateyri, fólk mætti til að þrífa og smíða, gaf hluti sem nauðsynlegir eru hverju heimili og kættust með okkur þegar verkinu lauk. Hér eru allir tilbúnir að leggja hönd á plóginn fyrir skólann okkar. Fyrir það erum við þakklát.

Stjórn skólans er skipuð bæði heimamönnum og nýjum Flateyringum, fólki sem leggur á sig ómælda vinnu við að búa til góðan skóla. Án þeirra væri þetta ekki hægt.

Ísafjarðarbær hefur staðið eins og klettur við bakið á okkur, greitt götur okkar og létt undir með ýmsum hættir, og sýnt það og sannað að mikill vilji er fyrir því að hér blómstri gott lýðskólastarf. Fyrir það erum við þakklát.

Ríkisstjórnin með Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra í broddi fylkingar hefur stutt vel við skólann, nýsamþykkt lög frá alþingi sýna að þetta skólaform er komið til að vera og er okkur mikil hvatining til áframhaldandi starfa. Við erum þakklát og auðmjúk, og við tökum ábyrgðinni sem þessu fylgir alvarlega.

Við búum svo vel að vera á eftirsóttum stað hér á vestfjörðum með skemmtilegt verkefni og frábæra nemendur, kennarar sem voru hér í fyrra vilja margir hverjir koma aftur til okkar í vetur. Við erum með frábæra kennara sem eru sérfræðingar á sínu sviði, reynslunni ríkari eftir síðasta skólaár, sem gefa ótrúlega mikið af sér til nemenda og samfélagsins hér. Svona skóli þarf einmitt þetta frábæra fólk með sér í lið, án þeirra væri upplifun nemenda og afrakstur skólans minni.

Kæru nýnemar, velkomin í Lýðskólann á Flateyri, hér á ykkur örugglega eftir að líða vel, hér er vel tekið á móti ykkur af heimamönnum, þið eigið örugglega einhver eftir að vilja setjast hér að að útskrif lokinni, eða vilja heimsækja þorpið okkar aftur og aftur í framtíðinni. Það er stórt skref að taka að skrá sig í nám í svona öðruvísi skóla, þið hafið sýnt mikið hugrekki og áræðni. Takk fyrir að velja skólann okkar. Við Anna Sigga eru mjög spenntar fyrir komandi vetri með ykkur.

Nemendum þykir greinilega vænt um skólann sinn því gömlu nemendurnir (þau sem útskrifuðust fyrir nokkrum dögum) eru mætt á sitt fyrsta reunion, rétt ný farin á vit nýrra ævintýa, greinilega með heimþrá í góðu Flateyrina

Mig langar að nýta tækifærið hér í dag og þakka forvera mínum í starfi, henni Helenu Jónsdóttur, ég tek við góðu búi og fæ endalaust að leita í hennar viskubrunn þar sem hún auðvitað býr enn hér á Flateyri. Einnig langar mig að þakka Önnu Siggu kennslustjóra, hún er kletturinn minn í dag, hún er búin að fylgja skólanum frá upphafi, reynsla hennar og innsæi gerir mitt starf léttara og skemmtilegra, ég er þakklát fyrir hana. Þessar tvær konur gerðu kraftaverk hér í fyrra með stuðningi stjórnar skólans.

En nú segi ég Lýðskólann á Flateyri formlega settann í annað sinn!

Ingibjörg Guðmundsdóttir,

skólastjóri.

DEILA