Svar Braga Thorodsen, sveitarstjóra Súðavíkurhrepps við fyrirspurn Bæjarins besta um sameiningu sveitarfélaga:
Það er engin launung að mér sjálfum hugnast ekki þessi aðferðafræði, að neyða sveitarfélög til sameiningar með lagaboði. Það er mín skoðun sem lögfræðings, sem starfsmanns úr stjórnsýslu og stríðir gegn minni sýn á lýðræði og virðingu fyrir landsbyggðinni. Ég hef ég miklar efasemdir um að þetta standist allt skoðun lögfræðilega. Ég veit að ráðuneytið fékk lögfræðiálit og vitnar þar í einn helsta sveitarstjórnarsérfræðing landsins úr röðum fræðimanna, Trausta Fannar Valsson. Allt að einu er í mínum huga afar hæpið að setning reglugerðar með þeim aðdraganda sem um ræðir dugi til að ýta til hliðar stjórnarskrárvörðum rétti sveitarfélaganna til að ráða málefnum sínum sjálf. Sá réttur er varinn samkvæmt 78. gr. stjórnarskrá og sjaldnast dugir þingsályktun eða reglugerðarbreyting til þess að víkja gildandi framkvæmd sem varin er stjórnarskrárákvæði. Það hvernig starfshópurinn var skipaður lýsir í mínum huga ákveðnum hroka og ekki síður umgjörð þess alls, samráðið sem var lítið sem ekkert og öllum mótbáruröddum eytt úr niðurstöðum vinnu starfshópsins.
Það er mikil andstaða við það víða að sameining fari fram með þessum hætti. Um það vitnar fundur sem haldinn var á fimmtudeginum 5. september á Grand hótel í Reykjavík með fulltrúum þeirra 40 sveitarfélaga sem ekki ná 1000 íbúum í dag. Það voru ekki mikið skiptar skoðanir þar. En mér fannst ég skynja ákveðna hræðslu við að stuða Sambandið með yfirlýsingu frá fundinum. Vel hefði mátt leggja eitthvað til sameiginlega, en einhverjir voru þó með önnur áform af þeim sem þar mættu. Það hefði mátt mýkja þetta mikið með annarri nálgun og þeim peningum sem á að leggja í aðlögun stjórnsýslu fyrir þá sem undirgangast þvingaða sameiningu. Það hefði mátt kaupa mikið fylgi fyrir þá fjárhæð sem leggja á til verksins og sveitarfélög sem ekki ná 250, 500 eða 1000 íbúamarkinu hefðu þá farið í þetta af meiri reisn og viðræður hafist undir kringumstæðum vilja en ekki undirgefni. Í raun skil ég ekki tilganginn en ljóst að stærri sveitarfélögunum var mikið kappsmál að fækka þeim minni. Þá fara margar vel stæðar og þokkalega reknar einingar í hít og verður mikill happafengur í t.a.m. Hvalfjarðasveit. Þá um leið verður öðrum fengið það vald sem hefur farið mikið fyrir; skipulagsvald fámennra sveitarfélaga.
Ég set fyrirvara við að það samræmist hlutverki Jöfnunarsjóðs að hafa aðkomu að sameiningarmálum. Mér er svo sem fullkunnugt um að það má breyta lögum og reglum, en ég held að þetta sé ekki rétta aðferðin. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga er til í þeirri mynd sem hann er í dag vegna annarra hluta en fjölda íbúa í sveitarfélögum, staðarmörkum eða fjölda sveitarfélaga. Þá þótti mér mjög miður að það hafi verið Samband íslenskra sveitarfélaga sem hafi í raun rekið einn naglann í kistu þeirra smæstu með sinni aðkomu. Ég hélt að Samband íslenskra sveitarfélaga væri málsvari þeirra allra en ekki bara stærstu sveitarfélaganna. Ég set mikinn fyrirvara við það að þessi herferð, blessuð af stóru sveitarfélögunum í trássi við mikla andstöðu margra minni sveitarfélaganna, hafi verið réttmæt miðað við hlutverk sambandsins og tilgang. Nærtækast er að lesa um það hér: https://www.samband.is/um-okkur/hlutverk-sambandsins/nr/100 Ég fæ ekki séð að það samræmist tilgangi þess að sýna vanvirðingu vilja þeirra smæstu.
Í Súðavíkurhreppi verður þetta skoðað miðað við stöðu mála í dag. Nágrönnum okkar sumum er mikið kappsmál að koma þessu á hreyfingu og er það vel, þrjú ár eru skammur tími í raun. En í Súðavíkurhreppi verður þessu væntanlega mætt af yfirvegun enda fleira til úrlausnar í sveitarfélaginu í dag. Þingið ræður för í haust og þessi stefna annað hvort hlýtur blessun eða ekki. Eftir að það liggur fyrir er nærtækast að íbúum verði eftirlátið að hafa þar skoðun og njóta þar með því skerta lýðræði sem þessi sameiningaráform boða. Kannski ekki skertu lýðræði, frekar vanvirðingu við sjálfstjórnarréttinn. Kannski kemur ekki til þess þó mér sýnist allt stefna í sömu átt. Kannski verður þetta til góðs fyrir íbúa hér, en það er þó ljóst að sjálfstjórnarréttur er virtur að vettugi. Stjórnsýsla mun heyra sögunni til í Grundarstræti og einn stærsti vinnustaðurinn verður stekkur líkt og Snorrabúð ef stór nágranni verður fyrir valinu. Það má alltaf velta því upp hvort það er fólki til góðs, jaðarbyggðir eru og verða jaðarbyggðir hvað sem líður tilfærslu á stjórnsýslu milli sveitarfélaga.
Í öllu falli er ljóst að sá sem sameinast byggð Súðavíkurhrepps mun hafa ærið verkefni við að halda uppi þjónustu hér svo sómi verði af, en mér er til efs að það verði eitthvað betra síðar. Þjónustukaup með samvinnu milli sveitarfélaga munu ekki leggjast af við þetta eitt að nokkur lítil sveitarfélög sameinist og hafa byggðasamlög og samvinna vel leyst málin hingað til. Súðavíkurhreppur hefur bæði áform um skilgreiningu þjónustuþarfar og hér horfa flestir til þess að líkur séu til þess að ein helsta uppbygging atvinnu sé áformuð inn á Álftafirði.
En fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott; það verður seint of oft tuggið. Það ber að gleðjast með þeim sem telja sér hag í þessari vegferð.
Bragi Þór Thoroddsen
Sveitarstjóri Súðavíkurhrepps