Á Vestfjörðum eru fasteignagjöldin langhæst á Ísafirði – nýrri byggð samkvæmt því sem fram kemur í samantekt Byggðastofnunar á fasteignagjöldum 2019 af sömu viðmiðunarfasteigninni á 26 þéttbýlisstöðum á landinu. Miðað er við einbýlishús sem er 161,1 fermetrar að grunnfleti. Stærð lóðar er 808 fermetrar.
400 þúsund kr á Ísafirði
Byggðastofnun skoðar fjóra staði á Vestfjörðum. Á Ísafirði eru fasteignagjöldin 400 þúsund krónur fyrir umrætt viðmiðunarhús. Næsthæst er Patreksfjörður og þar reiknast stofnuninni svo til að fasteignagjöldin séu 350 þúsund krónur. Á Hólmavík eru gjöldin 261 þúsund krónur en lægst í Bolungavík 260 þúsund krónur. Fasteignagjöldin á Ísafirði eru samkvæmt þessu 54% hærri en í Bolungavík.
Á landsvísu er Keflavík langhæst en Ísafjörður er með 7. hæstu fasteignagjöldin. Hólmavík og Bolungavík eru hins vegar í tveimur af þremur neðstu sætunum af þeim 26 sem eru í samantekt Byggðastofnunar.
Hæst á Patreksfirði m.v. fasteignamat
Út frá gögnum Byggðastofnunar má reikna hve há fasteignagjöldin eru sem hlutfall af verðmati eignarinnar. Þá verða gjöldin hæst á Patreksfirði. Þar eru fasteignagjöldin 350 þúsund krónur og fasteignamatið 19 milljónir króna. Það þýðir að greiddar eru 18.421 kr af hverri milljón króna mati. Næst hæst verða gjöldin á Ísafirði þannig reiknuð eða 14.981 kr./milljón. Á Hólmavík eru fasteignagjöldin 13.736 kr af hverri milljón króna. Langlægst verða fasteignagjöldin á Vestfjörðum í Bolungavík 9.937 kr. af hverri milljón króna fasteignamati, sem eru rétt um helmingur af gjaldinu á Patreksfirði.
Byrðin af fasteignagjöldunum eru miklu léttari á höfuðborgarsvæðinu þar sem fasteignamatið eru miklu hærra en fyrir vestan. Í Kópavogi reiknast fasteignagjöldin um 4.838 kr af hverri milljón króna fasteignamati svo dæmi sé tekið.