Bragakaffi: Þú sérð það á feisinu!

Bragakaffi í gangi. mynd: RUV.

Fyrir nokkrum árum gaf Þorleifur Ágústsson út bókina  Það svíkur ekki Bragakaffið! og er vísað til kaffitímanna í Vélsmiðju Ísafjarðar hjá Braga Magnússyni.

Í aðfararorðum segir um bókina:

ÞORLEIFUR ÁGÚSTSSON er fæddur og uppalinn á Akureyri. Sumarið 2004 flutti hann ásamt fjölskyldu sinni til Ísafjarðar og leið ekki á löngu þar til hann fór að snuðra á bryggjunni og nánasta umhverfi hennar. Í uppvextinum fór hann oft og iðulega í vitjanir með föður sínum dýralækninum og hitti þá ýmsa áhugaverða og skemmtilega karla. Þegar til Ísafjarðar var komið hélt hann uppteknum hætti og slæddist inn í beitningaskúra og aðra staði við höfnina þar sem eitthvað var um að vera. Eitt er víst að höfundur fékk með sér meira heim í soðið en bara nýveiddan þorsk.

Bókin er afrakstur margra kaffibolla í góðum félagsskap karlanna á kaffistofu Vélsmiðju Ísafjarðar. Sögurnar eru sögur karlanna, sagðar af þeim en færðar í letur af höfundi bókarinnar. Þeim er ætlað að skemmta fólki en ekki er ráðlegt að taka þær allar of trúanlegar. Höfum það sem betur hljómar!

Hér kemur ein af skemmtilegu sögunum í bókinni:

 

Þú sérð það á feisinu

Myrkrið er nánast áþreifanlegt þegar snjórinn hverfur og nóttin ræður ríkjum. Vart heyrist í bíl þetta kvöld á Ísafirði. Ísfirðingar eru heima enda er fólk ekkert að þvælast ofan í bæ að óþörfu. Þá sæti ég færis og fæ mér göngutúr niður á höfn og nýt þess að sjá bátana speglast í spegilsléttum sjónum – dansandi í flöktandi birtu ljósastauranna. Kyrrðin er mikil og ekki nokkur sála á ferð. Slökkt í öllum gluggum enda kvöldið brátt runnið sitt skeið á enda og nóttin handan við hornið. Nema í einum beitningaskúr. Fyrir utan stendur jeppinn sem er eitthvað svo lítill svona einn og sér en verður mun stærri þegar bílstjórinn er sestur undir stýri. Þetta er nefnilega jeppinn hans Óla á Gjögri. Inni í beitningaskúrnum er engin væmni líkt og í textanum hér á undan. Inni í beitningaskúrnum er verið að vinna – að hluta í það minnsta. Einn vinnur. Stór og mikill jaxl á sínum tíunda bala – en er þó búinn að taka því rólega að mér er sagt. Við borð í horninu situr Óli og reykir pípu. Búinn með sinn síðasta bala og ætlar aldrei meir að beita – nema náttúrlega bara fyrir sjálfan sig – það er ef stjórnvöld hirða ekki af honum kvótann.

Nei, hér er ekkert helvítis væl. Hér er unnið enda beitningameistarinn viss í sinni sök. Helvítis skattarnir komnir upp úr öllu og bensínið kostar hvítuna úr augunum. Djöfuls ástand. Óli hefur áhyggjur af öðrum hlutum. Hann er nefnilega kominn á feisbókina. Og því fylgir náttúrlega að með honum er fylgst. Gamlar frænkur að spyrja hann um ættfræði og hann bara með einn putta til vélritunar – og fjandans takkarnir virðast aldrei vera á sama stað! „Fjandans ólán“, segir hann – „veit fólk ekki að ég er Thorarensen!“ og spyr mig um ættfræði. Mér entist ekki ævin að svara slíkum spurningum – ættstór maður – kominn af málafærslumönnum og þaðan af betra. „En Tolli“, segir hann – „þú verður að verða vinur minn á feisinu. Alveg ómögulegt annað!“ „Já, auðvitað!“ segi ég. „Þó það nú væri. Get þá fengið fréttir af kaffistofunni þegar ég kemst ekki sjálfur.“ Beitningamaðurinn fussar og sveiar – segir þessa helvítis feisbók ekki borga skuldirnar sem við séum komin í – og þaðan af síður skattana! Ekkert nema tímaeyðsla og forvitni um náungann! „Jæja“, segir Óli og stendur upp. „Hva … ertu farinn?“ spyr beitningamaðurinn. „Já“, segir Óli – „ég þarf að skreppa aðeins.“ „Nú …“ spyr þá beitningamaðurinn „… hvurn fjandann ertu nú að fara – svona seint?“ „Þú sérð það á feisinu!“ segir Óli og hverfur út í myrkrið. Já, feisið er komið á Gjögur.

[contact-form][contact-field label=“Nafn“ type=“name“ required=“true“ /][contact-field label=“Tölvupóstur“ type=“email“ required=“true“ /][contact-field label=“Vefur“ type=“url“ /][contact-field label=“Efni“ type=“textarea“ /][/contact-form]

DEILA